05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Magnús Guðmundsson:

Jeg bjóst ekki við því, að háttv. fjárveitinganefnd mundi ganga að brtt. á þgskj. 403, um lækkun á launaviðbót símamanna, enda hefir sú raunin á orðið. En þó furðar mig, að háttv. nefnd skuli ekki sjá, að hún hefir farið of hátt í þessum launabótum.

Það fer fjarri því, að við flutningsmenn getum fallist á að taka brtt. okkar aftur. Nú rjett áðan var samþykt hjer í deildinni að veita ýmsum starfsmönnum landsins 10—20% viðbót við laun þeirra, og þá er augljóst, að mikið stökk er á milli þess og að veita símamönnum til jafnaðar 50% uppbót. Það virðist vera til millivegur, sem allir ættu að geta unað við, og þann milliveg viljum við flutnm. brtt. á þgskj. 403 fara. Símafólk er illa launað, ver en flestir aðrir starfsmenn landsins, og því leggjum við til að laun þess sjeu hækkuð um 30%, eða 10—20% meira en hjá öðrum starfsmönnum hins opinbera. Þessi hækkun er ekki svo óveruleg, þegar tillit er tekið til þess, að henni er ekki jafnað niður eftir höfðatölu eða launum, heldur eftir því, hverjir þurfa hennar brýnast. Fá þá sumir meira heldur en aðrir, símastúlkur geta t. d. fengið 60%. Símastjóri fór fram á 100% hækkun handa þeim, en það virðist alt of mikið, þegar menn aðgæta, að öðrum starfsmönnum landsins er ætlað að fá 10-20%.

Þá er og að líta á það, að starf símameyja við landssímann er sjaldnast æfistarf. Margar símameyjar hafa laun sín fyrir vasafje. Sumar vinna ef til vill fyrir sjer að einhverju leyti, en sárfáar munu hafa þetta starf að lífsatvinnu. Það er því ekki furða, þegar svona stendur á, að landssímanum haldist illa á símameyjunum. Þær fara blátt áfram af því, að þær vilja ekki vera lengur, án tillits til launanna.

Það hefir og verið gefið í skyn, að mönnum sje ógerningur að starfa við landssímann sökum þess, hve kaupið sje lágt, og starfsmenn segi því óðum upp starfa sínum. Hafi 2 af starfsmönnum símans sagt upp nýlega af þessari ástæðu. En jeg hefi heyrt það frá góðum heimildum, að verkfræðingi símans hafi boðist starf með 9.000 kr. launum í föðurlandi hans, Noregi, og fari hann af þeirri ástæðu, en hinn hafi kaupmaður hjer í bænum ráðið til sín með 5.000 kr. launum. Ef landssjóður ætti að bjóða þessum mönnum jafnhátt kaup, ylti alt okkar launakerfi, því að símaverkfræðing landsins getum við þó ekki launað hærra en ráðherra vora og almenna símritara hærra en æðstu embættismenn landsins. Við mundum engu fremur geta haldið þessum mönnum, þó að till. fjárveitinganefndar yrði samþykt, þar sem aðrir bjóða svo hátt kaup. Þessir menn fara burt frá landssímanum, þótt till. háttv. fjárveitinganefndar nái fram að ganga.

Þegar verkfræðingur símans lætur af starfi sínu, mun ekki vera unt að fá neinn í hans stað, og sparaðist þá það fje, sem honum er ætlað í launaviðbót. Landssímastjóra lægi nær að taka með í frv. um uppbót á launum embættismanna, og vil jeg skjóta því til háttv. nefndar að breyta þessu í þá átt. Verði það gert, verður uppbótin til hans ekki heldur tekin af þessum 25.000 kr. er við leggjum til að veittar verði.

Hvað það snertir, að síminn leggi þessa uppbót fram og að hún komi því ekki niður á landssjóði, er það að segja, að sú ástæða er næsta vesalleg, því að símamenn eiga ekki landssímatekjurnar, þótt þeir innheimti þær, og eftir sama hugsanagangi mætti t. d. segja, að ekki þyrfti að horfa í eða hafa lág laun sýslumanna, því að þeir innheimta langmest af tekjum landssjóðs.

Háttv. frsm; (M. Ó.) sagði við 2. umr. málsins, að jeg hefði sannað það, sem jeg ætlaði að ósanna, að fjárhagsnefnd hefði ekki í öllum aðalatriðum verið sammála fjárveitinganefnd um þessa launauppbót. Þetta er alveg rangt, því að nefndirnar eru einmitt ósammála um upphæðina, er veita skuli í þessu skyni, og þegar svo er, er ekki hægt að segja með rjettu, að nefndirnar sjeu sammála í öllum aðalatriðum, því að það er sannarlega eitt aðalatriðið, hversu mikið fje skuli veitt í þessu skyni.

Um hina brtt, á þgskj. 403, er ekki þörf að ræða, þar sem hv. fjárveitinganefnd gengur að henni.