05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Forsætisráðherra (J. M):

Að vísu er ekki mjög náið samband milli till., sem hjer er til umræðu, og fyrirspurnar þeirrar, er háttv. þm. Dala. (B. J.) beindi til mín. Hjer er eigi um annað að ræða en uppbót á launum símafólks, en fyrirspurnin lýtur að erlendu símafjelagi. Þó þykist jeg ekki geta skorast undan því að svara fyrirspurninni, enda þótt jeg hafi leitt hjá mjer að svara árásum blaðs þess, er hv. þm. (B. J.) nefndi.

Blaðið “Vísir“ hefir í nokkrum greinum að undanförnu ráðist mjög ósæmilega á útlendan mann og um leið gripið tækifærið til þess að ráðast á mig. Jeg vil þó undantaka eina grein, sem um þetta fjallar, því að hún er augsýnilega rituð af manni, er hefir nokkra velsæmistilfinningu, en hennar verður hvergi vart í hinum öðrum áminstu greinum. Annars hefi jeg fyrir satt, að það sje ekki ritstjórinn, sem hefir beint hafið árásina, heldur sje greinarhöfundurinn skúmaskotslubbamenni eitt, sem hefir þann sið, að reyna að ausa auri úr skugganum á sjer betri menn, en þykist sjálfur hvergi við koma.

Blaðið vill láta einhvern þingmann spyrja mig um, hvað hafi farið milli mín og Andersens etatsráðs, forstjóra Austur-Asíufjelagsins danska, og hvaðan mjer hafi komið leyfi til þess að ræða við hann. Í öðru lagi, hvernig jeg sje viðriðinn fossafjelagið Ísland, og er gefið í skyn, að jeg hafi beinlínis eða óbeinlínis verið viðriðinn afhendingu íslenskra fossa til útlendra fjelaga, og enn í þriðja lagi, hvers vegna jeg hafi tekið fyrir hönd landssjóðs 2 miljóna króna lán til óhæfilega skamms tíma hjá Stóranorræna-ritsímafjelaginu, og í hverju sambandi það standi við sjálfstæðismálin.

Um fyrsta atriðið skal jeg taka fram þetta. Í rauninni ætti engin þörf að að vera á því, að skýra frá því, af hvaða ástæðu jeg hafi fundið þennan ágæta mann að máli, mann, er nýtur svo mikils álits, að höfðingjar erlendra ríkja og hjer um bil hver einasti erindreki erlends ríkis, er kemur til Kaupmannahafnar, hittir hann að máli—mann, er byrjaði umkomulaus, en er nú orðinn nokkurskonar stórveldi.

Jeg kyntist Andersen etatsráði í fyrsta sinn árið 1908, er hann kom hingað til lands með Friðriki konungi VIII. Var þá gestum þeim, er komu í fylgd konungs, skift niður á ýms heimili hjei í bænum, og gisti hann þá nokkrar nætur á heimili mínu. Hann er kvæntur konu, sem er af íslensku bergi brotin, og má vera, að hann beri hlýjan hug til Íslands af þeirri ástæðu. Síðan hann gisti þennan stutta tíma hjá mjer hefir hann vikið kunnuglega að mjer, þá er jeg hefi komið til Kaupmannahafnar.

Þegar er hann kom hingað í fyrsta sinni árið 1908, lýsti hann þeirri skoðun við mig, að Danir ættu ekki að gangast fyrir stofnun fyrirtækja hjer á landi. Íslendingar ættu sjálfir að koma á þjóðþrifafyrirtækjum, og ef þeir fyndu eitthvað nýtilegt, mundi hann fús til þess að styðja þá með ráðum og dáð. Þessa sömu skoðun ljet hann uppi við mig í bæði skiftin er jeg kom sem ráðherra til Kaupmannahafnar. Sje jeg ekki, að neitt það komi fram í yfirlýsingu hr. Andersens, er fari í bága við þetta. Nú veit jeg ekki, hvort háttv. þingmenn ætla mig svo viti firtan, er jeg vissi skoðun mannsins, að jeg mundi biðja Austur-Asíufjelagið um að koma hjer fyrirtækjum á stofn, og því síður sem fjelagið starfar í alt annari átt.

Þá skal jeg drepa stuttlega á 2. atriðið í áburði blaðsins, hvernig jeg sje viðriðinn fossafjelagið Ísland.

Og er þessu þar til að svara, að jeg hefi ekkert verið við það mál riðinn, fyr eða síðar, öðruvísi en jeg skýrði frá á Alþingi í fyrra, er leyfisbeiðni þessa fjelags var þá til umræðu. Þá skýrði jeg frá, hver afstaða mín væri til málsins og hefi jeg þar engu við að bæta. Jeg hefi hvorki haft afskifti af kaupum á fossarjettindum (fossakaupum) eða því líku, nje komið nærri þeim málum, öðruvísi en jeg nú sagði. Og jeg hjelt satt að segja, að það væri nokkurn veginn kunnugt, að jeg hefi annars aldrei blandað mjer í þessi mál.

Skal jeg þá koma að þriðja atriðinu, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) talaði um, hvers vegna jeg hefði tekið miljónalán hjá „Stóra norræna“ og hvers vegna það væri tekið til tveggja ára og hverja þýðingu það hefði fyrir önnur mál vor. Þessu get jeg ekki svarað, því að mjer er allsendis ókunnugt um, að nokkurt slíkt lán hafi verið tekið hjá „Stóra norræna“. Síðasta lánið hjá því fjelagi var loftskeytalánið, sem var 500.000 kr. og tekið snemma á árinu sem leið, en umsamið áður, og kom það svo lítið við mig, að jeg vissi naumast, hve mikið það var eða til hve langs tíma.

Þessi árás er annars svo heimskuleg og klunnaleg og lýsir svo mikilli vanþekkingu á öllum landsmálum, að jeg undrast, að nokkur maður skuli leggja trúnað á það, sem þar er á borð borið. Það er auðvitað, að enginn sá maður, er gefur sig við stjórnmálum, og þessa síst sá, er veitir landsstjórn forstöðu, má kippa sjer upp við það, þótt á hann sje ráðist, og jafnvel logið upp því, sem svo er notað til árása.

Það hefir viðgengist og viðgengst enn, og jeg fyrir mitt leyti á sjerstaklega hægt með að taka því rólega. En jeg get ekki neitað því, að mjer hefir sárnað þessi árás, af því að mjer sárnar það, að íslenskt blað, á hve lágu siðferðis- og menningarstigi sem það annars stendur, skuli leyfa auðvirðilegustu Leitis-Gróu rúm til þess að svívirða erlend stórmenni, sem aldrei hafa sýnt Íslandi annað en velvild.