05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

106. mál, bráðabirgðalaunaviðbót handa starfsmönnum landssímans

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg hefi ekki miklu við að bæta, enda hefir háttv. þm. Barð. (H. K.) tekið vel fram margt af því, sem jeg vildi sagt hafa.

Jeg vil ekki deila við háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) um það, hvort fjárhagsnefndin hafi fallist á skoðun fjárveitinganefndar í aðalatriðunum eða ekki. En jeg verð að segja, að jeg kalla það að fallast á í aðalatriðunum, er fjárhagsnefnd telur einnig þurfa að bæta kjör símafólksins. En hitt er mjer ekkert aðalatriði, þótt hún vilji veita nokkuð minna fje.

En viðvíkjandi því, sem hann (M. G.) sagði, er hann vildi skoða brtt. þá, sem hann og nokkrir aðrir þm. flytja, í sambandi við, og bera hana saman við, launaúrbót embættismanna. En þetta er ómögulegt að bera saman. Þar sem síminn er, þar er að ræða um einskonar útgerð. Ef maður á skip og getur ekki haldið útgerð þess áfram nema hækka kaupið við skipverja, eða að öðrum kosti eiga á hættu að fá einhverja óvana menn í stað þeirra, er vel hafa reynst og æfðir eru orðnir, sem svo aftur hlaupi brott, er þeir taki að fá æfingu, þá er ekki að tala um annað en hækka launin. Þannig er um símann. Landssjóði helst ekki á æfða fólkinu fyrir 30—40 kr. á mánuði.

En hvað snertir upphæð þá, 25.000 kr., sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vill veita, þá er þess að geta, samkvæmt tillögum landssímastjóra á að skiftast milli kvenna og annara starfsmanna símans, sem lægst eru launaðir, 33.420 kr. Það, sem þá verður eftir af þeim 40.000 kr., er nefndin vill veita, eða 6.580 kr., á samkvæmt tillögum landssímastjóra að skiftast á milli landssímastjóra, aðalskrifstofunnar og allra gæslustöðvastjóranna. Nú sagði háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að símaverkfræðingurinn færi til útlanda og tæki þar stöðu. Það er rjett, en kemur ekki þessu máli við. Það hefir enginn sagt, að endilega ætti að nota upp þessar 40 þús. kr. Það er eðlilegt og sjálfsagt, að stjórnin hagi því eftir því, sem hún telur skynsamlegast, að fengnum tillögum landssímastjóra. Jeg vona, að háttv. þm. sjái, að öllu sje óhætt, þótt fjeð sje heldur meira en minna, því verði ekki sólundað. Jeg treysti bæði stjórninni og landssímastjóranum að fara vel með það. Jeg held, að það sje alveg áreiðanlegur hlutur, að þótt sumar símastúlkurnar kunni að nota kaup sitt sem vasapeninga, þá sjeu þó hinar fleiri, sem verja því til fata. Og nú hafa föt hækkað um alt að 70%. Það, sem nægði fyrir fötum í fyrra, nægir ekki nú. Jeg keypti t. d. fatnað nýlega, sem var hálfu dýrari en föt, er jeg keypti í fyrra, og þó miklu ljelegri. Kvenfatnaður er nú margfalt dýrari en áður. Maður getur alls ekki búist við, að ungt fólk, sem fært er orðið í flestan sjó, geti unað við slík kjör.

En ef háttv. flutningsmenn till. hefðu athugað þetta og borið saman við till. landssímastjórans, sem fyrir nefndinni hafa legið, þá býst jeg við, að þeim hefði farið sem háttv. meðnefndarmönnum mínum, að þeir hefðu komist að sömu niðurstöðu og landssímastjórinn og fallist á till. hans.

Þótt háttv. flm. (M. G.) vilji ekki taka till. sína aftur, þori jeg vel að eiga úrslit þessa máls undir sanngirni háttv. deildar.