09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Sigurður Stefánsson:

Jeg verð að vera háttv. flm. þakklátur fyrir að hafa komið með þessa till. Því að eins og útlitið er nú fyrir annan aðalatvinnuveg landsins, þá eru allar þær ráðstafanir, sem um hefir verið talað á þessu þingi, eintómur hjegómi á við það, ef hægt væri að tryggja landbúnaðinum sem mestan fóðurbæti fyrir búpening á næstkomandi vetri. Útlitið með landbúnaðinn er svo ískyggilegt, að það hefir sjálfsagt ekki verið verra í þeirra manna minnum, sem nú lifa. Eftir því, sem sögur ganga nú utan af landinu, er ekki einungis útlit fyrir, að heyfengur verði hálfu minni en venjulega, heldur víða jafnvel miklu minni en það.

Jeg get ekki sjeð, að þingið geti skilið án þess að gera einhverjar ráðstafanir til þess að ráða bót á þessu, ef þess er nokkur kostur.

Hjer hefir verið nefndur hrossafjöldinn. Það er rjett álitið, að hann hangir nú eins og Damoklesarsverð yfir höfði landbúnaðarins, og það verður að álítast í alla staði rjett, að hrossin sjeu drepin til bjargar öðrum skepnum.

En það var aðallega vegna hins atriðisins, sem jeg kvaddi mjer hljóðs. Það var viðvíkjandi síldarkaupum til skepnufóðurs. Jeg vildi árjetta það, sem hv. flm. (P. O) drap á, að ekki verði einungis gerðar ráðstafanir til að greiða fyrir flutningi á þeirri síld, sem til er eða til verður í landinu, heldur sje það athugað nú þegar, hvort ekki sje rjett, að landssjóður festi kaup á meiru eða minnu af henni. Því að ef síldin er keypt í lausasölu, þá getur farið svo, að þau hjeruð verði út undan, sem ef til vill einna helst þurfa hennar með. Það getur talist nauðsynlegt, að síldin sje í þeim höndum, sem geta „regulerað“, hvernig henni er skift niður.

Það er kunnugt, að einstakir menn eru þegar farnir að kaupa síld þá, sem Bretar eiga hjer síðan í fyrra. Verðið á henni er ekki sjerlega hátt á staðnum, þar sem hún liggur, en flutningskostnaðurinn er ærið mikill og kemur auðvitað harðast niður á þeim hjeruðum, sem fjærst liggja. Það gæti því verið mjög æskilegt, ef landssjóður gæti tekið einhvern þátt í flutningskostnaðinum.

Nú getur vel verið, að mönnum finnist, að ef landssjóður tekur að sjer kaup á þeirri síld, sem nú er til í landinu, þá geti það spilt fyrir markaðinum á þeirri síld, sem veiðast kann í sumar og verða kann á boðstólum innanlands í vetur, en jeg óttast það ekki svo mjög.

Hins vegar er þörfin svo mikil á fóðurbæti, að jeg tel varhugavert að sleppa tækifærinu með kaup á ensku síldinni.

Það er því öll ástæða til þess að taka þetta mál til alvarlegrar íhugunar.

Hvað ásetninguna sjálfa snertir, þá er sjálfsagt að samþykkja til., enda þótt það sje undir hælinn lagt, hvern árangur hún muni bera; hún getur aldrei gert ógagn. Jeg hygg, að allar hreppsnefndir geri það, sem unt er, til þess að hvetja menn til gætilegrar ásetningar í vetur, en till. er þó ekki ofaukið. Það er satt, að hreppsnefndir gáfu skýrslur síðastliðið haust, til stjórnarinnar, um þá, er forðagæslumönnum þótti setja of djarft á, en um árangur af því hefi jeg ekki heyrt, af hverju sem það stafar. En eðlilega er það erfitt fyrir landsstjórnina að hafa eftirlit með ásetningu bænda á hverjum bæ. Jeg veit til þess, að hreppsnefndir hafa gert það, sem í þeirra valdi stóð, til þess að menn settu gætilega á. Þannig var skorið af heyjum í einum hreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu á jólaföstu síðastliðinn vetur, og bjargaði það frá felli í vor. Eu auðvitað gerðu bændur það ekki ótilkvaddir, heldur fyrir áeggjan og forgöngu hreppsnefndar.

Jeg hygg, að komið gæti til mála, að þegar væri fest kaup á síld þeirri, sem Bretar eiga hjer á landi, að einhverju leyti. En auðvitað má verðið ekki vera of hátt Þess er að gæta, að flutningskostnaður er mikill, og eitthvað af síldinni kann að vera skemt og óhæft til skepnufóðurs, og er ekkert fyrir þá síld gefandi. Mjer er kunnugt um, að eitthvað hefir þegar verið selt af síld þessari, og mun hún verða seld úr þessu, eftir því sem kaupendur bjóðast að henni.