09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1308)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð nú að segja, að jeg geri mjer ekki von um mikinn árangur, þótt till. þessi yrði samþ., og sjerstaklega ekki um 2. lið, að hann leiði til neinna stórbyltinga. En af því að fyrri liður till. felur í sjer tilraun til að fyrirgirða hættu, er vofað getur yfir næsta vetur, þá mun jeg þó greiða till. atkv. mitt.

Um 2. atriðið sýnist mjer, sem það ætti ekki að spilla mikið, eða valda breytingum í neina átt, heldur sje það meinlaust og gagnslítið, eins og mörg pappírsgögn eru.

Um þetta fje, sem heimila á landsstjórninni í því skyni að afla fóðurbætis, skal jeg ekki fjölyrða. Mjer sýnist sem sje, að úr því að till. þessi er borin fram, þá leiði það af sjálfu sjer, að veita verði það fje, sem þarf til að framkvæma hana. Jeg geri ráð fyrir, að landsstjórnin tryggi kaupin sem best og leiti sjer upplýsinga um, hve mikið muni keypt, áður en hún festir kaup á nokkrum fóðurbætisbirgðum. (Atvinnumálaráðherra: Sú aðferð var höfð í vetur). Því betra og því minni ástæða til að óttast, að fjenu verði á glæ kastað eða fóðurbætir keyptur að óþörfu.

En það var aðallega út af orðum háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), sem jeg stóð upp. Jeg gat ekki vel felt mig við, að hann var, að mjer fanst, hálfgert að kasta hnútum að okkur, sem vorum móti forðagæslulögunum á síðasta þingi. Mjer fanst það ekki heldur vel við eigandi hjá honum eða hæversklega að orði kveðið um þingið nje vegleg ummæli um það, að það „biti í sinn eigin hala“. Sú fyndni hans er nokkuð vafasöm. Jeg var á móti forðagæslulögunum af því, að jeg álít, að Alþingi eigi ekki að óþörfu að blanda sjer í starfsemi eða búnaðaraðferðir bænda eða annara einstakra manna, að slík íhlutun um skör fram sljófgi ábyrgðartilfinninguna hjá þeim og spilli fremur en bæti. Um ásetningar vil jeg láta hreppsfjelögin einráð vera með bændum og ekkert valdboð ofan að. Hjer er ekki á ferðinni neitt brot á þeirri kenningu, heldur er hjer farin nákvæmlega sú leiðin og ekkert valdboð út gefið. (M. Ó.: Hvað þarf þá þingið að skifta sjer af þessu?). Því er svo undarlega farið, að jeg heyri aldrei nema lítinn ávæning af því, sem þessi háttv. þm. (M. Ó.) segir, og get því eigi svarað athugasemd hans. En það verð jeg að segja, að aðdróttun hans til vor þingmanna, sem vorum móti harðvítugum forðagæslulögum í fyrra, um að við göngum hjer á bak orða vorra með því að styðja þessa till., er gersamlega tilefnislaus.