09.07.1918
Neðri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Pjetur Ottesen:

Jeg skal ekki teygja tímann með því að eyða orðum við háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), og þá helst af því, að mjer virtust mótmæli hans móti þessari till. einkum sprottin af reiði og gremju út af því, að till. hans um lán til þriggja hreppa í kjördæmi hans var feld hjer í deildinni á dögunum. Jeg sje enga ástæðu til að orðlengja út af mótmælum, sem sprottin eru af slíkum hvötum.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) mælti alllangt mál um till. og fann að ýmsu í henni, en jeg held þó, eftir því sem næst varð komist, að hann í ræðulokin væri kominn að þeirri niðurstöðu að styðja till. Hann taldi alveg þýðingarlaust að samþ. annan lið till., um að brýna fyrir mönnum að gera ályktanir um tryggilegan ásetning búpenings. Þar dygði ekkert nema ströng lagaákvæði.

Við flutningsmenn till. álítum aftur á móti, að það sje einmitt rjetta leiðin í þessu máli að hvetja til þess að efla samtök og samvinnu í hjeruðunum um gætilegan ásetning búpenings.

Jeg þarf ekki að svara því, sem hann mintist á viðvíkjandi síðasta liðnum. Jeg tók það skýrt fram, að sú heimild, sem þar er gert ráð fyrir, lyti aðallega að því, að ljetta eitthvað undir með ívilnun í flutningsgjaldi hjá þeim, sem lengst þurfa að flytja fóðurbætinn.

Svo drap jeg á það, að til mála gæti komið, að stjórnin fengi menn út um land til þess að brýna fyrir mönnum nauðsynina á því að gæta nú varúðar í þessum efnum, einkum með tilliti til hins mikla hrossafjölda víða á landinu, þar sem útlit er nú fyrir lítinn heyafla og heyleysi blasir við. Því taldi jeg, að það gæti verið ástæða til að gera eitthvað í þessa átt, en þykist vita, að stjórnin muni gera sitt besta í þessu máli og fara þær leiðir, er hún telur skynsamlegastar og bestar.