06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

36. mál, stimpilgjald

Magnús Pjetursson:

Jeg get undirskrifað flest af því, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sögðu um aðgerðir stjórnarinnar í þessu máli. Háttv. þm. Dala. (B. J.), þessi sjálfkjörni skjaldsveinn stjórnarinnar, sem altaf þýtur upp, ef hann heldur að andi á hana, bar fram sem ástæðu fyrir því, að stjórnin hefði ekki komið fram með tekjuaukafrv. fyr en nú, að hún hefði sennilega verið að skoða huga sinn um, hvort hún ætti að koma fram með nokkurt tekjuaukafrv. En þetta er ekki rjett, því að hv. fjármálaráðherra lýsti yfir því í þingbyrjun, að stjórnin ætlaði að koma með slík frv.

Eitt er undarlegt og nýstárlegt í þessu efni, en það er það, að sú breyting er nú gerð á gamla stimpilgjaldsfrv., sem brýtur mjög bág við þá stefnu, sem háttv. fjármálaráðherra og þm. Dala. (B. J.) hafa haft. Fjármálaráðherra játaði að vísu, að það væri á móti sínu gamla „principi“. Hann var nefnilega áður algerlega á móti því að leggja toll á vörur framleiddar í landinu. En þessi nýja viðbót stjórnarinnar er ekkert annað en útflutningstollur — grímuklæddur þó.

Hæstv. fjármálaráðherra játar það líka, að hann hafi haldið öðru fram um þetta á Alþingi 1915 en nú kemur í frv. stjórnarinnar, en það stendur þó í þingræðu eftir hann, að hann sje algerlega á móti öllum auknum tolli á innlendar framleiðsluvörur; og þá hafði og háttv. þm. Dala. (B. J.) aðra skoðun á því en nú. (B. J.: Þetta er ekki tollur). Það verkar sem tollur, þótt það sje kallað stimpilgjald, og er því í raun og veru tollur. Það vita allir, jafnvel þm. Dala. (B. J.). Þá, 1915, var háttv. þm. Dala. (B. J.) svo mjög á móti þessum tolli, að hann tók mjög djúpt í árinni í orðum um hann; meðal annars bjó hann, eins og oftar, til nýyrði um toll á innlendum afurðum — verðhækkunartollinn — og kallaði hann „fátækrafláttu“, en nú lítur út fyrir, að háttv. þm. Dala. (B. J.) hafi ekki neitt á móti því, að flá fátæka alþýðu, og vilji leggja toll þennan á hana. (B. J.: Jeg get komið fram með brtt. síðar). Við sjáum til, hvað úr því verður, en ætli hann fari ekki eins og karlinn, sem ekki vildi jeta kjöt? — Hann át klauflax. Ætli það verði ekki eins? Hann vill ekki tekjurnar, þegar þær heita tollur, en ef skift er um nafn og þær kallaðar stimpilgjald, þá þykja honum þær gómsætar. Og jeg fæ ekki skilið, hvar þessi tollur ætti að koma niður, ef eigi væri það á almenningi. Ekki greiða kaupmenn hann úr sínum vasa, heldur munu þeir kaupa vöruna þeim mun ódýrar. Og þá er miklu betra að ganga hreint að verki, eins og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) sagði, og hafa þennan útflutningstoll sjer með rjettu heiti. Jeg vil því taka undir þau tilmæli hans (B. K.), að háttv. nefnd, er fær málið til yfirvegunar, athugi, hvort eigi sje rjett að greina þetta frá frv. stjórnarinnar.

En hvar er háttv. þm. Dala. (B. J.)? Þótt jeg renni augum yfir salinn, fæ jeg ekki sjeð hann. (S. St.: Hann er í gættinni). Jeg vildi svara honum örfáum orðum, úr því að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) er dauður. Mjer kom það ákaflega kynlega fyrir sjónir, að háttv. þm. Dala. (B. J.) skyldi vera að víta háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) fyrir, að hann hefði haldið langa ræðu. Jeg held, að hjer eigi fullkomlega við, að sá eigi ekki fyrstur að kasta grjóti, sem í glerhúsi býr, og jeg hjelt, að háttv. þm. Dala. (B. J.) hefði svo oft heyrt það, að hann sjálfur væri að þessu leyti dýrastur allra þm. og tefði þingið með löngum og leiðum ræðum, og eigi gerir hann hvað minst að því nú, er hann sprettur á fætur í hvert sinn, sem honum finst vera andað á stjórnina, jafnvel þótt það sje svo lint gert, að stjórnin finni það varla sjálf. Það er eins og þar sjeu einhverjir þreifiþræðir út úr stjórninni, sem sjeu miklu viðkvæmari en stjórnin sjálf.