12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Matthías Ólafsson:

Jeg mun ekki hingað til hafa verið talinn með sparnaðarmönnum þessa þings; en jeg ætla að fella mig við það álit, því að jeg hefi farið þar eftir minni eigin lund. Jeg hefi ekki kært mig um að spara, er um þarfafyrirtæki hefir verið að ræða, og jeg hefi ekki viljað kvelja opinbera starfsmenn landsins við sultarkjör. En þegar jeg heyri talað um að láta þangað fje, sem þess er engin þörf, hefi jeg tekið aðra stefnu, og eigi síst þegar jeg heyri fjármálaráðherra segja, að alt sje komið í kaldakol og ekki eru peningar til neins, ekki hægt að greiða skuldir á ákveðnum tíma, þá virðist mjer ástæða til að spara þar, sem má spara. Jeg heyri sagt, að ekki sje hægt að lána smáfjárhæð vegna fjárskorts, og landssjóður geti ef til vill ekki staðið í skilum með lán sín. Og í síðasta málinu, sem hjer var til umr., kom till. frá fjármálaráðherra um greiðslufrest á fje, sem landssjóður átti að greiða fyrir síld.

Jeg get ekki skilið, að það kosti landssjóð mikið lje, þó að stjórnin tryggi, að síld sje til í landinu. En ef það er ætlunin að flytja síldina frá einum stað á annan fyrir lækkað fargjald, þá get jeg ímyndað mjer, að það kosti töluvert, enda er jeg því með öllu mótfallinn. En þó að landsstjórnin greiði eitthvað fyrir flutningi, sendi símskeyti eða skrifi brjef, þá getur það ekki kostað mikið, enda hefir stjórnin heimild til slíkra útgjalda, án þeirrar heimildar, sem þessi till. á að veita henni. Jeg veit þess vegna ekki, hvað getur verið átt við í síðustu málsgr. till., þar sem stjórninni er heimilað fje til þessa.

Brýnararnir eru með öllu óþarfir og mundu illa sjeðir af bændum yfirleitt, ef að vanda lætur. Bændur hafa hingað til eigi þóst þurfa að sækja búnaðarvit til þingsins, þegar þingið hefir viljað skifta sjer af forðagæslumálinu, og svo mun vera enn. Þingið verður að kosta kapps um að vera í samræmi við sjálft sig. En það hefir sýnt hjer, að það er sjálfu sjer sundurþykt. Það þykist ekki hafa efni á að lána úr þeim sjóði, sem það hefir ráð yfir, en hjer vill það blátt áfram gefa fje.

Því fer þess vegna fjarri, að jeg vilji taka till. mína aftur; þó að jeg viti fyrirfram, að hún verði feld, þá vil jeg, að það sjáist svart á hvítu, í hve miklu samræmi þm. eru við sjálfa sig.