12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1314)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það er víst hugsun flestra þingmanna að teygja ekki tímann með löngum umræðum um þetta mál. Jeg vil lýsa yfir því, að jeg tel till. bjargráðanefndar vel til þess fallna, að hún fái einróma fylgi deildarinnar. Jeg þarf ekki að færa neina sjerstaka ástæðu fyrir þessu; flm. og fleiri hafa gert það áður. En jeg vildi sjerstaklega minnast á brtt. hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), á þgskj 472. Jeg er henni algerlega mótfallinn, og ef hún verður samþykt, er fótunum kipt undan framgangi málsins. Þá eru lagðar hömlur á allar frekari framkvæmdir í þessu efni. Jeg vildi drepa á það, að síðastliðinn vetur festi landsstjórnin kaup á fóðurmjöli og kom á bráðabirgðalögum um bann á útflutningi fóðurefna úr landinu. Þessi fóðurbætir kostaði um 80— 90 þús. kr., og stjórnin hafði ekki aðra heimild en nauðsynina á að tryggja landinu fóðurbirgðir. Þingið hefir ekki fundið ástæðu til þess að vita stjórnina fyrir þessi ráðstöfun, en það hefir ekki heldur þakkað hana, svo að jeg get látið það mál liggja milli hluta. En ef till. á þgskj. 472 verður samþykt, þá felst í því bending til stjórnarinnar um, að hún megi ekki verja fje til ráðstafana þeirra, sem hjer um ræðir. En hvernig á stjórnin að greiða fyrir flutningi á fóðurbæti, nema hún verji einhverju fje til þess í bráðina? Jeg heyri, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) kveður sjer hljóðs, og hann mun ætla að segja, að fyrir flutningunum megi greiða með haganlegum skipaferðum. En það nægir ekki. Stjórnin þarf meðal annars að tryggja það, að nægilegur fóðurbætir sje til í landinu, því að hver getur ábyrgðst það, að síld seljist ekki öll til útlanda í haust? Og líkur eru til þess, að stjórnin þurfi að greiða fje fyrir þá síld, sem hún vill halda eftir. Jeg vona þess vegna, að þótt háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó). færi frekari rök fyrir till. sinni, að háttv. deild fallist ekki á hana, heldur greiði atkv. till. bjargráðanefndar.