12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

116. mál, síldarkaup, síldarforði og ásetningur búpenings

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það eru tvö atriði í ræðu háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), sem jeg vildi minnast nokkuð á. Fyrst og fremst fann hann það að fyrri ræðu minni, að jeg hefði ekki skýrt, hvers vegna landssjóður hefði þurft að kaupa fóðurmjölið síðasta vetur. Jeg get skýrt frá því, að fyrst var falast eftir mjölinu frá útlöndum, og þar sem líklegt var, að eigendurnir mundu selja það til útlanda, var komið í veg fyrir það. En um sömu mundir varð stjórnin þess vís, að ýmsir innlendir braskarar ætluðu að kaupa upp birgðirnar, til þess svo að selja þær okurverði eftir á, og þá varð það úr, að landsstjórnin keypti heldur síldarmjölið alveg, heldur en að láta það verða úr, að það færi í gegnum hendurnar á svo og svo mörgum milliliðum, er hækkuðu verðið og hugsuðu ekkert um að úthluta því þar, sem mest væri þörfin, heldur seldu hæstbjóðanda. Þetta eða líkt þessu getur komið fyrir aftur í ár, og þá er gott að hafa heimildina. Það getur komið fyrir, að allar þessar 1.000.000 tunnur verði seldar út úr landinu fyrir hátt verð, en að þó verði til ódýrari síld í landinu, og þá getur það komið sjer vel fyrir stjórnina að hafa fjárheimildina til þess að kaupa hana og afhenda hana svo til sveitar- eða sýslufjelaganna gegn góðri tryggingu.