08.05.1918
Efri deild: 15. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

15. mál, útibú í Vestmannaeyjum

Flm. (Karl Einarsson):

Jeg hefi haldið till. þessari til baka hingað til, af því að jeg átti von á yfirlýsingu frá bankastjórn Íslandsbanka, viðvíkjandi útibúi, er hún hefir haft í hyggju að setja á stofn í Vestmannaeyjum, en af mjer ókunnum ástæðum er ekki enn komið í framkvæmd. Nú hefi jeg fengið þessa yfirlýsingu, en hún er svo óákveðin, að jeg sje ekki, að jeg geti látið vera að bera fram þessa till, svo sjálfsögð sem hún er, enda sje bankastjórn Íslandsbanka alvara að setja á stofn sitt útbú, og geri hún það, þá mun ekki haldið að Landsbankastjórninni að gera það, ef hún sjer ekki landinu hag í því. Jeg tek þetta fram til þess, að það komi skýrt fram, að Vestmannaeyingar eru ánægðir í bráð, ef þeir fá útibú frá hvorum bankanum sem er.

Um þörfina á útibúi í Eyjunum skal jeg fara nokkrum orðum. Eyjarnar hafa tekið miklum framförum nú á síðustu tímum. Húseignir eru nú þar virtar til brunabóta á kr. 2.570.000.00. Þar að auki eru lóðirnar, sem flestar eru leigðar til 80 ára gegn fremur lágu endurgjaldi, og er því talsverð eign í. Mótorbátar voru 66 í ár og fyrra; þeir eru minst hálfrar miljónar kr. virði, og til þess að gera þá út þarf mikið fje, sem öllum er til þekkja er kunnugt. Svo eru menn að koma sjer upp nýjum eignum, rækta kálgarða og tún og byggja fiskþurkunarreita; sjerstaklega túnin og stakkstæðin eru mikils virði. Til útgerðar og verslunar þarf auðvitað mikið fje. Það vita allir, sem til þekkja. Verslunarumsetning Eyjanna var árið 1896 nálægt 90 þús. kr., árið 1904 nálægt 400 þús., árið 1911 var umsetningin orðin rúm 1.400 þúsund, og árið 1916, eftir sama mælikvarða, 2.500 þús.

Það liggur því í augum uppi, að á svona stað, og svo afskektum, þarf að vera talsvert öflug peningastofnun. Það er meira en lítil fyrirhöfn og kostnaður að þurfa ætíð að snúa sjer til Reykjavíkur, er menn þurfa á láni að halda, auk þess sem bankastjórnirnar eru illa settar til þess að dæma um efnahagsástæður manna í fjarlægum hjeruðum, og svo er annað atriði, sem ekki er þýðingarlítið í þessu sambandi, að hafa á staðnum peningastofnun, þar sem menn geta geymt og ávaxtað sparifje sitt og gripið til þess þá er þarf. Það er nú svo, að í Eyjum er sparisjóður. En hvernig sem það nú er, þá er hann harla lítið notaður til þess að leggja inn í hann peninga. Flestir Eyjamenn geyma og ávaxta fje sitt í bönkum í Reykjavík, og mun þar auðvitað ráða miklu, að menn álíta fjeð tryggara þar en í sparisjóðnum, en engu minni er sú ástæðan, að hingað til hefir það svo verið, að ekki er svo auðvelt að grípa til fjárins, er það er komið í sparisjóðinn, því að hann tekur helst ekki við því öðruvísi en að það standi þar um langan tíma, og þarf að segja til löngu áður, ef menn vilja taka það út.

Það má segja um þetta mál eins og hitt, að það sje svo auðsætt og sjálfsagt, að jeg vona, að háttv. deild taki því með velvilja og leyfi því framgang, og skal jeg að eins benda á, að áreiðanlega er svo mikið að gera fyrir banka í Eyjum, að það verður ekki skaði, heldur þvert á móti hagur fyrir banka að setja útibúið á stofn, fyrir utan það mikla gagn, sem það mundi gera Eyjamönnum. Og eins má ekki gleyma, er þetta mál er athugað, að hjer er sveit með yfir 2.000 búsettum íbúum; auk þess eru 500—700 manns við góða atvinnu þar hálft árið, og talsverð verslun er þar rekin milli lands og Eyja við Eyrarbakka, Stokkseyri, Landeyjar, Eyjafjöllin og Vík.

Jeg mun ekki setja mig á móti því, að málinu verði vísað til nefndar, en álít þess þó enga þörf. En ef háttv. deild skyldi svo sýnast, þá tel jeg rjett, að því verði vísað til allsherjarnefnar.