17.05.1918
Efri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

15. mál, útibú í Vestmannaeyjum

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Nefndin hefir athugað till. þessa og komist að þeirri niðurstöðu að ráða háttv. deild til að samþ. hana með lítilli viðaukatill.

Þó er ekki svo að skilja, sem öll nefndin hafi verið á sama máli í fyrstu, því að nokkur hluti hennar var þeirrar skoðunar, að slík mál sem þetta snertu ekki þingið, og það ætti að gera sem minst að því að seilast inn í verkahring bankanna. Sá hluti nefndarinnar áleit því í fyrstu, að ekki bæri að sinna till. þessari.

En nefndin vildi þó leita sjer upplýsinga um málið, og fjekk hún þá þær upplýsingar, að Íslandsbanki hefði í hyggju, og hefði jafnvel áformað, að setja á stofn útibú í Vestmannaeyjum.

Nefndin hafði einnig stjórn Landsbankans til viðtals, og kvaðst hún einnig vera fús til að setja á stofn útibú þar, þegar hagur og ástæður bankans leyfðu.

En hjá nefndinni sá stjórn Landsbankans brjef frá Íslandsbanka, þar sem hann kveðst hafa í hyggju að koma af stað útibúi þessu, og sagðist hún þá ekki mundu fara í kapp við Íslandsbanka, þar sem hún hefði einnig tækifæri til að setja á stofn önnur útibú; miklu fremur væri henni þökk á því, ef Íslandsbanki vildi hjálpa til, svo að tvö útibú yrðu stofnuð á sama tíma.

Þegar nefndinni voru kunnir orðnir þessir málavextir, varð hún sammála um, að fylgja fram till., ef þau afskifti þingsins mættu verða til þess að flýta fyrir því, að annarhvor bankinn setti útibúið á stofn.

Nefndin leit svo á, að sama væri frá hvorum bankanum útibúið kæmi. Aðalatriðið er það, að útibúsins er brýn þörf, og það sem fyrst. Liggja til þess margar ástæður, sem ekki þarf að rekja.

Nefndin vill því ráða háttv. deild til að samþ. till. með þessari litlu viðaukatill. á þgskj. 135.

Orðabreytingin, sem þar er farið fram á, er svo smávægileg, að nefndin mun ekki gera hana að kappsmáli. Að eins þótti nefndinni fara betur í munni að nota orðið „útbú“, en ekki „útibú“.

Jeg hefi svo ekki fleira um málið að segja.