14.05.1918
Efri deild: 18. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

50. mál, kolanám í Gunnarsstaðagróf

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Frumkvæðið að því, er snertir rannsókn þessarar námu, er komið frá stjórninni. Hæstv. fyrv. fjármálaráð herra (B. K.) byrjaði í fyrra vetur að leita sjer upplýsinga um þessa námu, og maður var fenginn af stjórninni til þess að skoða hana, aðstöðuna að henni og fleira. Maðurinn, sem fenginn var, var Guðmundur G. Bárðarson í Bæ. Enn fremur fór fram efnarannsókn á kolunum hjer í efnarannsóknarstofunni í Reykjavík, og kom við þá rannsókn í ljós, að kolin eða surtarbrandurinn væri vel brúkanlegt eldsneyti.

Svo tók þingið við málinu, og í fyrra samþyktu báðar deildir þingsins þingsályktunartill., sem var bein ósk til stjórnarinnar um að láta rannsaka og styðja kolanámuna með fjárframlögum úr landssjóði eftir þörfum. Þetta varð til þess, að sýslunefndin í Strandasýslu fór að athuga málið nú í vetur og komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri mál, sem endilega þyrfti að komast í framkvæmd. Gerði sýslunefnd tvær till. um málið, aðaltill. og viðaukatill.

Aðaltillagan var sú, að landssjóður ljeti reka námuna. Viðaukatillagan fór fram á, að landssjóður ljeti byggja veg, 2 km., til sjávar, bygði torfskýli, lánaði áhöld og útvegaði verkstjóra. Með þessum skilyrðum ætlaði sýslunefndin að sinna málinu.

Þessa síðari till. sýslunefndar tók nú bjargráðanefnd Ed. til athugunar, en aðaltillöguna leist henni ekki á að sinna, því að svo mikil reynsla var fengin frá Tjörnesnámunni um námurekstur landssjóðs, að engum datt í hug, að landssjóður ætti að fara að reka námuna á eigin kostnað. En eitt fanst nefndinni sjálfsagt, að styrkja bæri námureksturinn á einhvern hátt.

Verkfræðingur landsins var heldur letjandi málsins, en lagði þó til, að sýslunni væri veitt 1.000 kr. tillag til fyrirtækisins, en nefndin vildi heldur binda styrkinn við árangurinn, þannig að fjárframlag úr landssjóði verði veitt til styrktar kolanáminu, er nemi 10 kr. á hverja smálest nothæfra kola, sem framleidd verða þar á þessu ári. Styrkveiting á þennan hátt finst mjer eðlilegri en hin, sem till. landsverkfræðingsins felur í sjer, en jeg vildi, að landssjóður styrkti vegagerðina. Það fyndist mjer sanngjarnt að þingið fjellist á og vona, að það verði gert í Nd., hvort ekki sje rjett að veita sjerstakan styrk til vegarins.

Vegurinn til sjávar er, eins og jeg áður sagði, um 2 km. á lengd, en bratt og ósljett á leiðinni; yrði að leggja hann eftir melaröndum nokkrum á ská, sem lengir hann dálítið, en þegar að sjónum er komið, er fyrir besti lendingarstaður og ágæt höfn.

Sýslunefnd Strandasýslu gerði ráð fyrir, að ef til framkvæmdanna kæmi í þessu máli, þá mundi Húnavatnssýsla styðja fyrirtækið líka með fjárframlögum, svo að fjárhættan lægi ekki öll á sjóði Strandasýslu. En í raun og veru kemur málið of seint fyrir þingið, því að úr því að bjargráðanefnd getur ekki fallist á óbreytta varatillögu sýslunefndar, getur sýslunefndin ekki komið málinu í framkvæmd fyr en hún hefir haldið nýjan fund og gert nýja ályktun, samkvæma þingsályktunartillögu þeirri, sem hjer liggur frammi.

Jeg vona því, að háttv. deild taki vel í málið og leyfi því að ganga sem allra fljótast í gegnum þingið. Fleira þarf jeg ekki að taka fram þessu viðvíkjandi.