17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

50. mál, kolanám í Gunnarsstaðagróf

Pjetur Jónsson:

Jeg skal geta þess, að bjargráðanefndin hefir ekki haft þessa till. beinlínis til meðferðar, þótt hún hafi athugað málið; enn fremur get jeg getið þess, að bjargráðanefnd Nd. hafði ekki tekið neina afstöðu til þessa máls þegar bjargráðanefnd Ed. tók við því.

Jeg geri ráð fyrir, að nefndin greiði atkv. með því að vísa málinu til síðari umr., en þó vil jeg taka það fram sem mína eigin skoðun gagnvart brtt. á þgskj. 160, að mjer finst það vera heppilegri aðferð, sem felst í till. frá háttv. Ed., sem sje sú, að styrkja svona fyrirtæki með því að greiða þeim ákveðið gjald fyrir hverja smálest, sem upp er tekin. Auðvitað getur það verið álitamál, hvort yfirleitt beri að styðja námugröft eftir þessum mælikvarða, því að það gæti komið svo misjafnlega niður, en jeg geri ráð fyrir, að það mundi þó verða til þess, að reynt væri að afla kolanna þar, sem það borgaði sig best.

Jeg álít það dálítið óheppilega leið, sem brtt. vill fara, ef styrkja á með því að leggja veg. Við erum að vísu búnir að átta okkur á því, að ekki þarf stórfje til að leggja þennan vegarspotta, sem hjer um ræðir. En ef veitt er heimild til ótiltekins kostnaðar í þessu skyni hjer, má búast við, að svo verði á öðrum stað eins, þar sem kostnaðurinn kynni að verða miklu meiri og má ske fjarri öllum sanni. Hjer getur því sem betur fer ekki verið um mikið fje að tefla, en jeg held, að sýslunefndin hefði eins gott af að fá 10 kr. á hverja smálest, sem upp yrði tekin, eins og að fá þessa fjárveitingu eftir brtt.