16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

36. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi ekki ástæðu til annars en að vera mjög stuttorður. Jeg leyfi mjer að þakka nefndinni fyrir undirtektirnar undir frv., og þykir rjett að taka fram, að jeg sje einmitt ýmsa sömu agnúana á því og nefndin, eins og jeg hefi áður tekið fram, en þeir verða að víkja fyrir nauðsyninni.

Að því er brtt. snertir, vil jeg að eins lýsa yfir því, að jeg get fallist á þær allar. Þá gefur hvorki fjárhagsskýrslan nje ræða háttv. frsm. (M. G.) tilefni til langrar ræðu, því að undirstaðan virðist í öllum aðaldráttum hin sama. Þó vil jeg athuga, að þar sem nefndin dregur kr. 590.080,63 frá tekjuhallanum á árinu 1917, þá virðist mjer sú upphæð of há, þar sem á árinu 1916 að eins var lagt úr landssjóði til landsverslunarinnar 190.520 kr. Hvað framtíðarspánum viðvíkur, þá hefi jeg búist við því, að hallinn kynni að verða meiri 1918 heldur en nefndin gerir ráð fyrir, en ekki er hægt að segja, hversu miklu muni muna, enda slær líka nefndin þann varnagla, að hallinn geti orðið meiri.

Jeg vil mælast til, að frv. verði samþykt með brtt. nefndarinnar, og jeg vil láta ánægju mína í ljós yfir því, að háttv. fjárhagsnefnd skuli hafa komist að sömu niðurstöðu í aðaldráttum um fjárhag landsins og jeg, enda bjóst jeg líka altaf við því.