29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Magnús Pjetursson:

Jeg veit ekki, hvort allir háttv. þingdm. hafa tekið eftir áliti fjárveitinganefndar á þgskj. 245. Því var ekki útbýtt hjer á fundinum. Jeg stóð að eins upp til þess að minna á það, áður til atkvæða er gengið, svo að það skyldi ekki fara fram hjá mönnum. Meiri hluti fjárveitinganefndar mælir með þessu máli, þó með vissu skilyrði, sem sje því, að að eins verði veittur styrkur til eins báts á því svæði, sem sjósókn er mest á vetrum. Fjárveitinganefndin býst við, að orðið gæti um fleiri en einn bát að ræða. Yrðu það þá mjög mikil útlát fyrir landssjóð. En það eru þó ekki eingöngu og ekki aðallega útlátin, sem nefndin horfir í, heldur hitt, að ekkert er víst og engin reynsla fyrir því, að hve miklu gagni slíkir bátar koma.

Nefndin álítur því sjálfsagt að binda styrkveitinguna eingöngu við einn bát og láta sjá, hvernig hann reynist, áður en hugsað er um fleiri. Jeg vildi því leyfa mjer að skjóta því til hv. sjávarútvegsnefndar, hvort hún vill ekki koma með brtt. í þá átt, sem álit fjárveitinganefndar fer fram á. Ef hún vill ekki gera það, þá verður meiri hluti fjárveitinganefndar að koma fram með brtt. við síðari umr. En það væri æskilegra, að sjávarútvegsnefnd tæki breytinguna upp, enda sje jeg ekki, að hún brjóti neitt í bág við skoðun þeirrar háttv. nefndar á málinu.