14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Forsœtisráðherra (J. M.):

Jeg þarf ekki. að halda langa tölu í þessu máli, og ætla ekki að gera það, því að hæstv. fjármálaráðh. hefir skýrt svo afstöðu stjórnarinnar. Ætla jeg því ekki inn á nein sjerstök atriði, en að eins minnast á það, sem nú er fram komið um lán vegna dýrtíðarinnar. Jeg benti á það á síðasta þingi, að þessi vegur, lánveitingarnar, mundi ekki vel heppilegur. Og mjer finst hv. deild, og þingið í heild sinni, hafa rekið sig á, að það er dálítið athugavert að fara þá leið. Jeg hefi ekki heyrt eins einasta manns getið, er lastað hafi stjórnina fyrir það, að hún notaði ekki lánsheimildina í þeim lögum, er nú gilda.

Að menn urðu svo fljótt sammála um þetta, ætti að færa mönnum heim sanninn um það, að þessi leið, lánaleiðin, muni eitthvað athugaverð. Jeg skal nú játa, að eftir till. hv. bjargráðanefndar er áhætta landssjóðs í fljótu bragði ekki eins mikil og í lögum þeim, sem nú gilda. En jeg segi: Í fljótu bragði. En það má ekki líta á eitt ár. Það verður að búast við því, að ófriðurinn, og þar af leiðandi dýrtíðin, haldist mörg ár enn. Ef byrjað er að lána, er örðugt að hætta því. Þarf þá ekki nema ofureinfalt reikningsdæmi til þess að sýna, að áður en varir er landssjóður sokkinn niður í það díki, sem hætt er við að hann komist seint upp úr. Segjum, að lánið yrði ekki meira en 1 miljón króna fyrsta árið Með sama áframhaldi yrði það 2 miljónir næsta árið o. s. frv.

Annars held jeg, að þessi rótgróni hugsunarháttur í hv. þm. um, að landssjóður láni mönnum, sje frá þeim tíma, er bankarnir voru ekki enn teknir til starfa. Landssjóður á alls ekki að vera lánsstofnun, heldur eiga bankarnir að vera það. Þess verður fyrst og fremst að krefjast, að bankarnir hjálpi landssjóði og sveitarfjelögum um fje. (P. J.: Það er gert ráð fyrir því). .Ef svo er, þá er það óskiljanleg hringferð, að landssjóður láni fyrst fje hjá bönkunum og sveitarfjelögin síðan hjá landssjóði. Hví mega þá ekki sveitarfjelögin fara strax beint til bankanna? Þeir, sem vilja fara varlega, ganga ekki inn á þessa lánaleið. Og þeir, sem vilja tryggja sjálfstæði landsins, bæði fjárhagslegt og annað, ganga ekki inn á þessa braut. Það er betra að vita, hvað maður treystir sjer til. Það er betra að leggja út 1/2 miljón króna en að lána margfalt fje upp á óvissa endurborgun, því að þegar sveitarfjelögin eru orðin svo illa stödd, að þau verða með þessum lánum að bjarga sjer frá hungursneyð, þá liggur í augum uppi, að endurborgun frá þeim er óviss. En ef hitt er meiningin, að lána ekki úr landssjóði fyr en bankarnir geta ekki lánað lengur, þá er eins gott að láta það vera að samþykkja þessa till. Hún verður þá aldrei notuð. Bankarnir okkar eru ekki svo illa staddir, að þeir geti ekki lánað sveitarfjelögum landsins 2 miljónir næsta ár, ef þeir vilja.

Jeg endurtek það, að landið á ekki að vera lánsstofnun. Það er misskilningur frá gömlum tíma, sem menn eru ekki búnir að losa sig við. Það er alt annað mál, þótt landssjóður í einstökum tilfellum styrki með lánum sjerstök fyrirtæki, sem miða að aukinni framleiðslu. En þetta, sem hjer er farið fram á, á sjer hvergi nokkursstaðar fordæmi, svo að jeg viti.

Háttv. meiri hluti hefir gert mjög litið úr þessum styrk úr landssjóði, 5 kr. á mann, sem landsstjórnin vili veita. En þegar það er tekið saman við það fje, sem sveitarsjóðir eiga að leggja fram, eftir stjórnarfrv., þá er þessi styrkur einungis einum fjórða hluta minni en lánsstyrkur sá, er meiri hluti nefndarinnar ætlast til að veittur sje, og 5 krónur á mann handa hverju sveitarfjelagi er að vísu ekki mikið, en það væri þó dálítill styrkur. Við skulum gera ráð fyrir, að ekki þyrfti að nota hann nema handa svona 1/4 hluta af íbúum hvers sveitarfjelags; það yrðu þá 100 krónur handa hverju 5 manna heimili, og bætist þar við tillagið frá sveitinni sjálfri, þá nemur þetta 300 krónum. Það yrði þó dálítill styrkur, svo að það er ekki rjett hjá háttv. frsm. meiri hlutans (P. J.), að þetta sje að eins handaþvottur, því að ástandið er ekki orðið svo hjer enn þá, að hver maður í hverju einstöku sveitarfjelagi þurfi styrk til þess að geta lifað. Jeg tel það mjög athugavert fyrir hverja stjórn að þurfa að framkvæma slík lög sem þetta frv., einkum og sjer í lagi með það fyrir augum, að verið geti, að ófriðurinn haldi áfram nokkur ár enn þá, því að jeg geri ekki ráð fyrir öðru en að háttv. meiri hluti bjargráðanefndar hugsi út í það.

Jeg sagði áðan, að jeg vildi ekki fara út í nein einstök atriði, enda gerist þess ekki þörf, og auk þess hefir, auk hæstv. fjármálaráðherra, háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talað í málinu eftir því sem stjórnin lítur á það, og get jeg í flestum tilfellum sagt, að jeg sje háttv. þm. (G. Sv.) alveg sammála, eða yfir höfuð að tala í öllum aðalatriðum, enda kemur álit háttv. þm. (G. Sv.) fullkomlega saman við álit stjórnarinnar yfirleitt.

Það var eitt aukaatriði, sem háttv. frsm. meiri hl. (P. J.) var að tala um, að það gæti verið tvímælum bundið, hvort dómar um ýms verk stjórnarinnar fjellu á þá leið, að þeir yrðu henni þægilegir. Jeg verð þá að segja það, að ef hver stjórn ætti að hugsa mikið um það, hvernig dóma verk hennar fengi, þá færi að verða erfitt að stjórna bæði hjer og annarsstaðar. (S. S.: En er hún ekki altaf að hugsa um það?) Nei, hún verður að sætta sig við að fá skammir alstaðar frá. (B. J.: Heyr!) (E. A.: Heggur sá, er hlífa skyldi).