16.05.1918
Neðri deild: 24. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

36. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að stimplun farmskírteina væri grímuklætt útflutningsgjald, en svo er ekki. Þetta er beint útflutningsgjald. (M. P.: Það er grímuklætt, af því að það kemur ekki í sjerstöku frv.). Það skiftir ekki máli í þessu efni, hvort útflutningsgjaldið er ákveðið í sjerstökum lögum, eða í lögum, sem einnig innihalda annað. Grímuklætt verður útflutningsgjaldið ekki fyrir því. (B. J.: Það er ekki útflutningsgjald). Það þýðir auðvitað ekki að vera að stæla við háttv. þm. Dala. (B. J.) um þetta atriði, en jeg vil að eins segja honum, að þetta er útflutningsgjald, gjald, sem lagt er á útflutta vöru, og er mjer sama hversu oft þessi háttv. þm. (B. J.) neitar því; gjaldið verður hið sama fyrir það.

Fjárhagsnefndin var og er mótfallin útflutningsgjaldi, en eins og nú stendur, sjer hún sjer eigi fært að leggja á móti tekjuaukafrv. Hún tók því það ráð, að láta stimpilgjaldið á farmskírteinum eiga sig, til þess að þurfa ekki að búa til nýtt frv. um þetta efni. Hygg jeg, að enginn geti láð nefndinni þetta, eins og nú stendur á um fjárhag landsins, og það því síður sem nefndin hefir búið þannig um hnútana, að stimpillögin hljóta að verða endurskoðuð fyrir árslok 1921, og ætlast nefndin til þess, að þá verði bæði breytt stimpilgjaldinu í heild og eins, að þá verði stimpilgjald af farmskírteinum felt niður, ef auðið verður vegna fjárhagsins.

Hæstv. fjármálaráðherra benti á, að skýrslu hans og fjárhagsnefndar bæri ekki saman að öllu leyti, og taldi sína skýrslu rjettari, en þær eru báðar rjettar. Munurinn liggur að eins í því, að hann hefir gert upp tekju- og gjaldareikning, en nefndin efnahagsreikning, hvorttveggja fyrir fjárhagstímabilið 1916 —1917. Af þessu kemur munurinn, því að af því að nefndin gerði upp efnahagsreikning var henni skylt að taka með alt, sem landssjóður á hjá landsverslun, en hæstv. fjármálaráðh. tekur eigi með það, sem greitt er árin 1914 og 1915.