11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Magnús Pjetursson:

Fyrir hönd fjárveitinganefndarinnar vil jeg gera nokkra grein fyrir afstöðu hennar gagnvart till. og brtt. Jeg hefi að vísu ekki haft tíma til að tala við nefndina fyr en nú undir umræðunum, en samkvæmt því viðtali býst jeg við því, að þeir kjósi fremur till., eins og hún var samþykt í háttv. Nd.

Nefndin telur, að eigi sje unt að veita styrk nema til eins báts, og það var tekið skýrt fram við framsögu málsins í háttv. Nd, og er það bót í máli, ef brtt. verður samþykt, að frsm. nefndarinnar úr háttv. Ed, háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) hefir nú lýst yfir því, að nefndin þar vilji ekki veita styrk nema til eins báts.

Fjárveitinganefndinni er ekki kunnugt um, að nokkursstaðar sje hafinn undirbúningur á þessu nema í Vestmannaeyjum, og það var vegna þess undirbúnings, sem þar hefir verið gerður, að málinu var hreyft hjer á þinginu. Sjávarútvegsnefndin leit og svo á, að hvergi væri betra að byrja slíka tilraun en í Vestmannaeyjum, taldi svæðið kringum Eyjarnar best fallið til þess. Jeg fæ því ekki skilið, eftir því sem málið er upplýst, því eigi má binda styrkinn við bát við Vestmannaeyjar, því að eins og málið horfir við, þá ætlast víst allir háttv. þm. til, að tilraun þessi verði þar gerð. Jeg vil því, fyrir hönd fjárveitinganefndar háttv. Nd., mæla með því, að till. sje samþykt óbreytt.