11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Magnús Pjetursson :

Í tilefni af orðum háttv. þm. Dala. (B. J.) skal jeg taka fram, að þeir háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) hreyfðu mótmælum á móti þessu í fjárveitinganefndinni, en þeir voru tilleiðanlegir tii þess að greiða atkv. með till. með því móti, að styrkurinn væri að eins veittur til eins báts og jafnframt staðbundinn við Vestmannaeyjar, og jeg býst við því, að örlög brtt. ráði atkv. margra háttv. þm., og því legg jeg til, að hún sje feld. Jeg skil ekki heldur, hvar fiskur liggur undir steini með brtt. þessa, þar sem allir frsm. allra nefnda, er hafa meðhöndlað málið, lýsa yfir því, að að eins beri að styrkja einn bát og að besti og rjettast valdi staðurinn sje Vestmannaeyjar. Og þar sem ekki er kunnugt um, að nokkursstaðar annars staðar hafi að þessu efni verið unnið, þá skil jeg enn þá siður, hví menn vilja fella niður nafnið Vestmannaeyjar úr till. Og mjer finst, að sá staður, er fyrstur hefir vakið málið og hafið undirbúning þess, eigi að fá fyrsta bátinn, einkum þar sem það líka er besti staðurinn til tilrauna með björgunarbátinn. Jeg vænti því, að brtt. verði feld.