11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Frsm. sjávarútvegsnefndar Ed. (Kristinn Daníelsson):

Það er ekki til að hleypa kappi í þetta mál, að jeg tek aftur til máls, heldur til að skýra sumt, sem jafnvel sumir ræðumennirnir virðast hafa skilið óljóst.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) hjelt því fram, að að eins væri um Vestmannaeyjar að ræða. En það er ekki rjett nema að hálfu leyti. Menn hafa búist við, að Vestmannaeyjar yrðu fljótastar að ná í styrkinn. En hitt vil jeg ekki kannast við, að Vestmannaeyjar sjeu eini sjálfsagði staðurinn að byrja á. Hafnleysur eru engu minni í Sandgerði og í kringum Reykjanesið. Þar er útgerð engu hættuminni en við Eyjarnar. Sami háttv. þm. (M. P.) virtist og halda, að hvergi væri vaknaður áhugi fyrir þessu máli nema í Eyjunum. Jeg man ekki hvor okkar, jeg eða háttv. þm. Vestm. (K. E.), vakti fyr máls á þessu máli í sjávarútvegsnefnd Ed., en það má jeg segja með sanni, að það var ríkt í mínum huga löngu fyr en það heyrðist nefnt hjer í þinginu. Mjer fyndist mjög ósanngjarnt, ef sagt væri við þá, sem hafa sömu þörf og Vestmannaeyingar: „Skiftið þið ykkur ekki af þessu. Þetta er bara gert fyrir hina“. Háttv. þm. Dala. (B. J.) benti á, að mannslífin eru dýrmæt. Undir það munu allir geta tekið með honum. En eru mannslífin nokkuð dýrmætari á einum stað en öðrum?

Ýmsir virðast líta svo á, að hjer sje að eins um tilraun að ræða. Jeg lít svo á, að hjer sje ekki um neina tilraun að ræða, heldur byrjun. Þetta er engin tilraun, sem á að ráða úrslitum um, hvort lengra skuli haldið eða hætt, heldur er þetta byrjun á miklu nauðsynjaverki, sem hlýtur að verða framhald á. En auðvitað er þessi byrjun tilraun að því leyti, að fyrsta reynslan, sem fæst, verður góður grundvöllur undir aðrar framkvæmdir á þessu sviði.

Jeg held nú, að málið liggi ljóst fyrir, og vona, að menn sjái, að það er sanngjarnast að binda ekkert um það, hvar byrja skuli, heldur verði þeim leyft að byrja, sem sýna þann áhuga fram yfir aðra, að verða fyrstir.