11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Karl Einarsson:

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir verið að halda því fram, að mál þetta sje óundirbúið. Þetta er ekki rjett. Fiskifjelagsdeildin í Vestmannaeyjum hefir tekið málið að sjer og ákveðið að koma því fram. Þótt enn sje ekki búið að ákveða, hvort sjerstakt fjelag skuli myndað innan deildarinnar, sem annist kaup og útgerð á björgunarbát, eða hvort leitað skuli styrks til sýslufjelagsins og að það hafi svo umráð með bátnum, eða fjelagið sjálft eða deildin skuli eiga bátinn.

Viðvíkjandi því, hvort báturinn eigi að hafa önnur störf en þau, sem að björgun lúta, skal jeg geta þess, að jeg veit ekki til, að nokkur hafi til þess ætlast, meðan vertíð stendur. Báturinn yrði að fylgja róðrarbátunum. Slys á sjó eru ekki altaf að kenna vondu veðri. Það kemur oft fyrir, að vjelar bila í sæmilegu veðri, og komast bátarnir þá stundum ekki heim fyrir myrkur. Þá er verið að fá þreytta sjómennina til þess að fara aftur út að leita. Þegar svo leitin byrjar, er oft, auk myrkursins, komið manndrápsveður.

Áhuginn fyrir þessu máli er mjög sterkur í Eyjunum. Við fengum áminningu í vetur, þegar tveir bátar fórust á einum degi með allri áhöfn. Flestir útgerðarmenn í Eyjunum munu þá hafa ásett sjer að það skyldi verða síðasta vertíðin, sem Eyjarnar væru björgunarbátslausar.

Þótt þingið yrði svo sljótt að fella þessa till, sem jeg býst ekki við, munu Eyjarskeggjar hafa einhver ráð til þess að ná sjer í bát, engu að síður. Peningana mun ekki vanta, þegar um slíkt nauðsynjamál, sem þetta, er að ræða. En jeg vona, að háttv. Alþingi skiljist, að af þess hálfu má engin töf verða á þessu máli, því að það er til stórminkunar, að það skuli ekki vera fyrir löngu komið í framkvæmd.

Að sjálfsögðu ætti landið sjálft að eiga björgunarbáta á öllum helstu fiskistöðvunum. En það var álit Eyjabúa, að þess yrði oflangt að bíða, og því var skorað á mig að leita styrks til bátskaupa. Bátskaupin mega ekki dragast.

Í vetur sem leið lentu nokkrir mótorbátar í löngum hrakningum, sem ekki hefði þurft að verða. Þá fórust 2 bátar. Þá var og bjargað skipi. Sú björgun hefði ekki eingöngu borgað útgerð björgunarbáts, heldur og allan bátinn.

Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvort brtt. verður samþ. því að jeg veit, að strax verður tekið til óspiltra málanna, þegar búið er að samþykkja till. í einhverri mynd. Því að peningana vantar ekki; það er jeg viss um.