25.05.1918
Efri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Flm. (Magnús Torfason):

Það þarf ekki að bæta miklu við það, sem tekið er fram í greinargerð þeirri, er fylgir frv. Vil jeg að eins benda enn frekar en gert er í greinargerðinni á það, að póstur þessi hefir verið sviftur atvinnu sinni, þegar sú breyting var gerð á póstferðunum, að vestanpóstur á að ganga milli Búðardals og Arngerðareyrar, í stað Hjarðarholts og Ísafjarðar, eins og áður var. Það má því skoða styrk þann, er þingsál þessi fer fram á, sem nokkurskonar biðlaun.

Þessi maður hefir nú verið póstur í aldarfjórðung, og áður en hann varð póstur var hann fylgdarmaður pósta, og allan þann tíma hefir hann verið fyrirmyndarpóstur, sótt fast ferðir sínar, verið stundvís, svo stundvís, að nú í þau nær 14 ár, sem jeg hefi verið á Ísafirði, hefir hann nær aldrei verið á eftir áætlun. Og samviskusamari mann getur ekki. Tvisvar hefir hann lagt líf sitt í hættu til þess að bjarga póstinum, og í annað sinn var svo hætt komið, að báturinn fórst með öllu lauslegu, er í honum var, nema póstinum, er Jóhannesi tókst með snarræði, dugnaði og karlmensku að bjarga. Hann hefir farið mjög vel með skepnur og það svo, að prýði er að, en það hefir vitanlega kostað hann talsvert fje. Þó gat hann með stakri nýtni og sparsemi og með því að neita sjer um flest þægindi lífsins sparað saman dálítið fje.

En stríðið hefir leikið hann grátt, sem fleiri sýslunarmenn landsins; tekjur póstanna hafa lítt hækkað, en aftur hefir kostnaður þeirra vaxið mjög, og síðasti vetur varð honum dýr, svo dýr, að hann má heita öreigi. Hann er um sextugt, slitinn og uppgefinn og það svo, að tvö síðustu árin hefir hann orðið að hafa mann sjer til aðstoðar, en það hafa hinar litlu tekjur hans ekki þolað; hann hefir sjálfur lítið eða ekkert haft fyrir starfa sinn.

Menn geta litið mjög misjöfnum augum á það, hversu há eftirlaun skuli veita honum og hvort hjer sje rjett upphæð tiltekin, en gæta verða menn þess, að 3 kr. eru áreiðanlega ekki meira virði nú en 1 kr. var fyrir stríðið, og að hann er fjölskyldumaður og þarf því meira til að lifa af en maður, sem er einhleypur. Jeg lít svo á, að eigi nokkur maður skilið að geta lifað ellidaga sína án búksorgar, þá sje það þessi maður, og það þarf ekki að fóðra hann lengi, því að póstferðirnar, einkum síðustu árin, hafa merkt hann.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja til, að þingsál. þessari verði vísað til fjárveitinganefndar, að lokinni þessari umr.