25.05.1918
Efri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1418)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Halldór Steinsson:

Jeg get ekki neitað því, að það er ósamræmi milli skoðana þeirra, er koma hjer fram um eftirlaun. Sumir háttv. þm. vilja fella allar launahækkanir og afnema eftirlaun, og segjast hafa þjóðarviljann á bak við sig, en að hinu leytinu berjast aðrir við að hækka laun og eftirlaun einstakra manna.

Jeg skal eigi fara að rökræða það, hvort rjett sje að hafa eftirlaun eða ekki, en meðan eftirlaun ríkja hjer á landi, þá verður að hafa samræmi í þeim, og þá má ekki veita einstaka mönnum miklu hærri eftirlaun en öðrum í sömu stjett, er má ske hafa starfað lengur. Og það má alls ekki veita neinum svo há eftirlaun, að hann geti eins sagt af sjer starfi sínu og lifað á eftirlaunum einum eins vel og embættislaunum sínum. Það gætu komið fleiri háværar raddir á eftir, sem þá væri erfitt að synja — fordæmið væri fengið.

Þessi þingsál. fer fram á að veita Jóhannesi pósti Þórðarsyni 1000 kr. árleg eftirlaun. Jeg tel það nú víst, að póstur þessi hafi staðið vel í stöðu sinni og sje alls góðs maklegur, og póstsstarfið er erfitt. Það væri því ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að veita honum eftirlaun, en það á ekki að gera honum mikið hærra undir höfði en starfsbræðrum hans; það á ekki að taka hann út úr. Jeg teldi það mikið betra, ef þingsályktun þessari væri breytt svo, að honum væri í eitt skifti fyrir öll veitt einhver ákveðin fjárupphæð í viðurkenningarskyni fyrir starfsemi sína, og sú leið hefir verið farin oft áður; fyrir henni eru nóg fordæmi. Jeg ber það traust til háttv. fjárveitinganefndar, að hún breyti till í þessa átt, svo að öðrum póstum verði eigi misrjettur ger. Jeg tel líka sjálfsagt, að nefndin leiti álits póstmeistara um till. og skýri frá því við síðari umr. málsins.