05.06.1918
Neðri deild: 40. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

67. mál, þóknun handa Jóhannesi pósti Þórðarsyni

Sigurður Stefánsson:

Till. þessi er komin hingað frá háttv. Ed., og var hún þar flutt af háttv. þm. Ísaf. (M. T.). Sökum kunnugleika míns á þessu máli get jeg ekki látið hjá liða að segja nokkur orð till. til stuðnings.

Hjer ræðir um mann, sem gegnt hefir póststörfum í 25 ár. Mjer er kunnugt um það, að öll þessi ár hefir hann gegnt þessum starfa með sjerstakri elju og dugnaði og á þeirri leið, sem erfiðust er allra póstleiða á landinu, þar sem fara verður yfir 2 fjallvegi og 5 mílna langa sjóleið milli Arngerðareyrar og Ísafjarðar. Þó hefði þessi till. ekki komið fram, ef ekki lægju til þess sjerstakar ástæður. Stjórnarráðið hefir nú gert þá breytingu á póstleiðinni, að pósturinn á nú að fara frá Búðardal að eins til Arngerðareyrar, og þar á Djúpbáturinn að taka við honum. Maðurinn er búsettur á Ísafirði og getur því ekki tekið að sjer ferðirnar með þessari breytingu, þar eð hann á ekki aðsetur á annari hvorri endastöðinni, annaðhvort á Arngerðareyri eða í Búðardal. Hann er grasnytjarlaus á þessum stöðum og getur því ekki aflað fóðurs handa hestum sínum. Þetta er aðalástæðan til þess, að þessi maður sækir nú um eftirlaun, að hann sjer sjer ekki fært að halda áfram ferðunum með þessu breytta fyrirkomulagi, þó að hins vegar megi telja, að hann sje orðinn útslitinn í þjónustu landsins. Það má taka fram, að í þessi 25 ár, sem hann hefir annast póstferðir á eigin ábyrgð, — því að 3 árin þar á undan gegndi hann þeim fyrir annan, — hefir hann annast þær með atorku og áhuga og einstakri samviskusemi, eins og sjá má, ef menn vilja kynna sjer umsókn hans, sem liggur hjer frammi í lestrarsalnum, með þeim meðmælum, sem henni fylgja.

Í bænarskránni frá honum, eða manninum, sem samdi hana fyrir hann, er farið fram á 1.500 kr. eftirlaun á ári. Það gat auðvitað varla komið til mála að verða við þeirri kröfu.

Háttv. fjárveitinganefnd í Ed. leit svo á, að hinar breyttu kringumstæður með ferðirnar gerðu það ómögulegt að hafa á móti því, að þessum manni sjeu veitt biðlaun, 1.000 kr. í 3 ár, en eftir það hafi hann vanaleg eftirlaun. Það er því margt, sem mælir með því að veita honum þessi biðlaun, þegar bæði heilsa hans veldur því, að honum er það nauðsyn, og svo þessi breyting, sem stjórnarráðinu hefir þótt þörf að gera á fyrirkomulagi póstferðanna, gerir manninum ókleift að halda þeim áfram. Því að mjer þykir líklegt, að þrátt fyrir bilaða heilsu hefði hann reynt að halda ferðunum áfram nokkur ár enn, meðan kraftarnir entust, ef ekki hefði verið loku fyrir það skotið með þessari breytingu á póstleiðinni.

Jeg býst ekki við, að þetta mál verði útkljáð hjer í deildinni án þess að það gangi til nefndar. Leyfi jeg mjer því að leggja það til, að að þessari umræðu lokinni verði því vísað til fjárveitinganefndar.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um málið að þessu sinni. Jeg taldi mjer skylt að leggja þessum mæta manni liðsyrði á þingi, í viðurkenningarskyni fyrir hans löngu og trúu þjónustu í þarfir þjóðarinnar.