29.05.1918
Neðri deild: 34. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1454)

68. mál, bátaferðir á Faxaflóa

Pjetur Ottesen:

Jeg vil leyfa mjer að þakka háttv. samgöngumálanefnd fyrir undirtektir hennar undir þá málaleitun okkar þingmanna Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, að ráðin yrði bót á því öngþveiti, sem nú er komið í með bátaferðirnar í Faxaflóa, og áhuga hennar á því, að undinn verði bráður bugur að því, að eitthvað verði gert í þessu mikla nauðsynjamáli. Jafnframt vil jeg, til árjettingar því, sem háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) tók fram, beina þeim tilmælum til hæstv. stjórnar, að hún láti ekki undir höfuð leggjast að gera það, sem kostur er á, til þess að koma ferðunum í viðunanlegt horf.