21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

36. mál, stimpilgjald

Einar Arnórsson:

Af því að þetta mál er í þann veginn að fara út úr deildinni, vil jeg leyfa mjer að lýsa afstöðu minni til þess.

Eins og þessu frv. er háttað, þá eru það alls ekki öll skjöl, sem stimpluð verða, heldur þau ein, sem fara í gegnum hendurnar á bönkum eða einhverjum valdsmönnum.

Ef frv. þetta verður að lögum, þá hefir það í för með sjer hið mesta misrjetti milli manna. Sá, sem fær víxillán í banka, verður að borga stimpilgjald, en sá, sem fær lán hjá einstökum manni og gefur út honum til handa víxil eða skuldabrjef, greiðir ekkert stimpilgjald. Á þá að hlynna með þessu að okurkörlum, en aftra mönnum frá skiftum við banka? — Sá, er gerir samning við mann og er svo heppinn, að þurfa ekki að leita dómstólanna út af þeim samningi, þarf ekkert gjald að greiða. En hinn, sem vegna mótþróa eða getuleysis kaupunauts síns er neyddur til þess að leita dómstóla, verður að greiða aukagjald, auk lögmæltra dómsmálagjalda. Hvers eiga slíkir að gjalda? Annarsstaðar er þessi munur eigi gerður. Hitt er rjett, að auðveldara er um eftirlit, þegar skjalið fer um hendur opinbers embættismanns. En sektaákvæði bæta mjög úr þessu. Ef skjalið væri stimpilskylt þegar án þess að til greina komi, hvort það komi í hendur valdsmanns, mundu menn alment inna þá skyldu þegar af hendi, ef sekt lægi við að gera það ekki, því að fyrirfram er mönnum ekki unt að vita, nema skjalið þurfi síðar að koma í hendur valdsmanns, vegna þess að viðsemjandinn gegnir eigi rjettilega þeirri skyldu, sem hann hefir á sig tekið með skjalinu.

Og viðvíkjandi stimpilgjaldi af farmskírteinum, þá er það ótvírætt, að það verkar eins og útflutningsgjald. Það getur ekki orkað tvímælis. Hvort sem það er kallað beint útflutningsgjald eða grímuklætt útflutningsgjald eða hreint og beint stimpilgjald, þá verkar það eins og útflutningsgjald, sem lagt er á afurðirnar. Mig furðar því, ef þeir menn, sem eru mótfallnir útflutningstolli, geta greitt atkv. með þessu frv. Ef jeg man rjett, þá var ekki neitt slíkt fyrirmæli í frv. því um stimpilgjald, sem afgreitt var frá þessari deild í fyrra. Þar var ekki minst á stimpilskyldu „konnosse-menta“. Það er vonandi, að háttv. Ed. lagi frv. eitthvað til og ráði bót á verstu ágöllunum. Hjer mun ekki tjóa að spyrna á móti broddunum, því að jeg bygg, að afráðið sje, að frv. verði afgreitt frá þessari deild í dag.