20.04.1918
Neðri deild: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

9. mál, bjargráðanefnd

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Á síðastliðnu þingi var flutt till. samhljóða þeirri, er hjer liggur fyrir. Jeg býst við því, að allir telji nú ekki síður en þá þörf á að gera einhverjar ráðstafanir mönnum til bjargar. Dýrtíð og atvinnuleysi þrengir nú að miklu meir en nokkru sinni fyr. Horfurnar á því, að sjávarútvegurinn, helsti bjargræðisvegur þjóðarinnar og aðaltekjulindin, geti starfað, eru því miður ískyggilegar, og ýmsar aðrar atvinnugreinar standa nú mjög svo höllum fæti sakir dýrtíðar og ýmsra annara erfiðleika, er af heimsstyrjöldinni leiða.

Eitthvert allra helsta verkefni þessa þings er að reyna að hjálpa við atvinnuvegum landsmanna til sjávar og sveita, svo að þeim verði starfað sem allra mest, og helst að það verði gert svo mikið, sem orka og tæki leyfa. Ef þingið gæti þannig greitt fyrir atvinnuvegum landsmanna, að þeir gætu starfað í fullu fjöri eða því sem næst, þá er það eflaust það langbesta, sem það getur gert í dýrtíðarmálunum. Það er hollasta hjálpin fyrir hvern einstakling þjóðfjelagsins og þjóðina alla í heild sinni.

Það er engum efa bundið, að dýrtíðin og atvinnuleysið sverfur langmest að kauptúnabúum. Er slíkt eðlilegt, þar sem sjávarútvegurinn hefir rýrnað svo tilfinnanlega, og þessi fáu skip, sem eftir eru í landinu, hafa sumpart lítið eða þá alls ekki neitt getað stundað veiðar, sakir dýrleika og skorts á þeim nauðsynjum, er til útgerðarinnar þarf. Gæti þingið á einhvern hátt ljeð þessum atvinnuvegi lið, svo að hann gæti starfað, þá mundi sú ráðstöfun verða til hagsælda landi og lýð. Og þótt svo kynni að fara, að ekki reyndist kleift að halda öllum fiskifleytunum til veiða, þá getur það, sem minna er, verið til bóta, en því meira sem að því væri gert, þess betra.

Þetta mundi kaupstaðabúum þekkasta liðsinnið, og jeg er ekki í neinum efa um það, að það mundi í reyndinni verða ódýrasta og á allan hátt notadrýgsta hjálpin.

Verkefni þessarar nefndar er ærið mikið og vandasamt. Og þótt jeg viti, að allir þm. muni leggja lið sitt til að gefa bendingar um, á hvern hátt unt sje að verjast atvinnuleysi og skorti í landinu, þá er það þó aðalætlunarverk þessarar nefndar að leggja á ráðin, hvernig þjóðin best getur varist dýrtíðinni með öllum hennar afleiðingum. Því miður eru nú horfur á því, að erfitt verði að koma með þau ráð, er að verulegu haldi megi koma.

En þótt útlitið sje nú svona ískyggilegt, þá verðum við að vona, að þetta þing beri giftu til þess að ráða þjóðinni þau bjargráð, er henni megi að verulegu liði verða. Það er nú alkunnugt, að þjóðin væntir mikils af þinginu í þessum efnum. Og það er öldungis rjettmætt, að þjóðin vænti slíks af fulltrúum sínum. En af öllu því, sem þingið gerir, hag þjóðarinnar til viðreisnar, er það hollasta og hagfeldasta hjálpin að halda við atvinnuvegunum. Jeg býst við, að vjer allir flutningsmenn till. sjeum þeirrar skoðunar, að þetta liðsinni væri hið allra besta.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um till. þessa, því að jeg skoða hana sem sjálfsagða.