26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það vill svo vel til, að jeg þarf ekki að tefja tíma háttv. deildar, nje heldur lengja þingtíðindin, því að flest það, sem háttv. flm. (G. Sv.) tók fram, get jeg sætt mig við. Verslunarmálið er eitt hið stærsta verkefni fyrir þing og landsstjórn, og því nauðsynlegt, að alt sje þar sem ljósast og best athugað, því að af því má sjálfsagt margar bendingar fá til athugunar í framtíðinni.

Jeg hefi því ekki annað að segja en það, að jeg get í umboði stjórnarinnar lýst yfir því, að stjórninni sje það alls ekki ókært, að verslunarmálið sje sem best rannsakað á þessu þingi og gert kunnugt almenningi, að því leyti, sem háttv. nefnd velur úr fleiri eða færri atriði, sem hún vill taka sjerstaklega fram.