26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Einar Arnórsson:

Það eru að eins nokkur orð, út af því, sem háttv. þm. (Sv. Ó.) sagði, að hann furðaði sig á því, að jeg hefði komið með brtt. við brtt. hans og fjelaga hans, á þgskj. 25. Það er ekki svo furðulegt, því að þótt jeg álíti, að málið eigi að fara í sjerstaka nefnd, og flytji till. um það, þá get jeg hugsað sem svo, að meiri hl. háttv. deildar geti orðið með því, að málið fari ekki í sjerstaka nefnd, og þá er till. háttv. þm. (Sv. Ó.) að fela það bjargráðanefnd. En fari það ekki til sjerstakrar nefndar, þá finst mjer hyggilegra að fela það fjárhagsnefnd. (B. J.: Eða allsherjarnefnd). Það getur líka komið til mála. En mjer finst rjettara að skipa því í fjárhagsnefnd. Það er bjargráðanefnd, sem tekur til athugunar öll þau mál, er snerta bjargráð framtíðarinnar, en þetta er fremur endurskoðun en bjargráðaatriði, og þau störf, sem snerta endurskoðun, eiga að fara til fjárhagsnefndar, ef þau eru ekki svo merk, að skipa þurfi sjerstaka nefnd. Jeg veit að vísu ekki, hve mikið bjargráðanefnd hefir að gera, en hins vegar finst mjer, að fjárhagsnefnd hafi svo miklu minna að gera, því að á þessu þingi kemur t. d. engin landsreikningaendurskoðun, og hvort hún fær nokkur skattamál eða ekki skal jeg láta ósagt; jú, eftir yfirlýsingu hæstv. fjármálaráðherra fær hún eitt skattamál, sem enn er ekki komið fram. En jeg efast ekki um það, í hvora nefndina sem það kann að verða sett, að þá sjeu þær báðar vel hæfar til þess að fara með það, svo að það er ekki þess vegna, að jeg tel það ekki gerlegt að skipa því til bjargráðanefndar, heldur af því, að hún hefir nóg að fást við, þó að þetta fari fram hjá henni.