26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Bjarni Jónsson:

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vildi draga það út úr orðum mínum, að jeg vildi ekki, að þessi rannsókn færi fram. Það er skrítin aðferð til að gera mönnum upp orðin, því að jeg þóttist tala skiljanlega. Jeg held jafnvel, að allir hafi getað skilið orð mín þar um, og háttv. flm. (G. Sv.) líka, en hann hefir ekki viljað segja rjett frá sínum skilningi. Þessi orð hans voru viðlíka rjett og ef jeg segði, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefði komið fram með till. sína af hatri og illvilja til stjórnarinnar. Jeg er ekki að halda þessu fram, en það væri jafnrjett og sá skilningur á orðum mínum, er hann hjelt fram.

Háttv. þm V. Sk. (G. Sv.) vildi bera brigður á, að það væri skylda bjargráðanefndar að rannsaka framkvæmdir liðna tímans. Jeg held því fram, að bjargráðanefnd geti ekki gert till. um framtíðina nema byggja á því, sem gert hetir verið. Jeg sagði aldrei, að það væri lagaskylda, en það tilheyrir hennar starfi. Þetta getur háttv. fim. (G. Sv.) skilið, ef hann vill, en þess mun naumast að vænta, þegar hann er að gegna málflutningsmensku sinni hjer á þingi. Í þessu máli er hann málaflutningsmaður og ekkert annað.

Einnig vildi sami háttv. þm. (G. Sv.) bera brigður á, að það væri skylda fjárhagsnefndar að rannsaka fjárhag landsins. Því er fljótsvarað, að það er bein lagaskylda hennar samkvæmt þingsköpum. Hún heitir fjárhagsnefnd, og starfs svið hennar er sýnt í nafninu. Jeg skil ekki, hví þessi háttv. þm. (G. Sv.) mælir svo, sem áður hefir sjálfur verið í fjárhagsnefnd og er það nú. Hvort sem um aukaþing eða aðalþing er að ræða, er það skylda þessarar nefndar að athuga alt, sem að hennar starfi lýtur, og á hún sjálf að sjá á hverjum tíma, hvað nauðsynlegt sje að gera. Og jeg skal nú segja háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), hafi hann ekki vitað það áður, að það er hans skylda að gera alt, sem hann getur, fyrir fjárhag landsins, eins og það er skylda hvers gáfaðs þingmanns að gera það. Sama háttv. þm. (G. Sv.) þótti það undarlegt, að jeg sagði, að bjargráðanefnd ætti að gera þetta, og kvað svo virðast, sem starfsmenn þeirrar nefndar óskuðu eftir meira starfi. En það eitt lá í mínum orðum, að bjargráðanefnd verður að gera þetta; það heyrir til hennar starfi. Frekar mætti segja, að með brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A ) sje fjárhagsnefnd að sækjast eftir aukinni vinnu, því að verslunarframkvæmdir þessar heyra þó ekki beint undir starfssvið hennar, fjárhag landsins.

Þá þótti háttv. sama þm. (G. Sv.) það athugavert, að háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) á sæti í bjargráðanefnd, en jeg sagði, að gerðir hans þyrftu og að rannsakast, þar eð hann hefir áður átt sæti í stjórninni. En það er þó meira að formi til, að það getur rekið sig á. Hugsum oss, að ný nefnd sje kosin, og í hana sjeu skipaðir þessir kunnugu menn og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem með þeim vill vinna að ákveðnu marki. (E. A.: Hvaða marki?). Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) veit það vel. Jeg vil ekki gera honum þann grikk að segja það hjer. (E. A.: Þm. þorir það þá ekki). Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) veit vel, að jeg er engu hugblauðari en hann. Þótt einn maður sje í 5 manna nefnd, sem ekki vill starfa með að sama marki, þá getur nefndin altaf bætt við sig mönnum, og er því hægt að vinna verkið til fullnustu, þótt svo standi á. Það var dálítið einkennilegt, sem kom fram hjá sama háttv. þm. (G. Sv), að það væri best að þeir, sem störfuðu að rannsókn þessari, væru sem kunnugastir. Það er alveg rjett, að kunnugleikinn er mikill kostur. En hví sjer þá ekki hinn háttv. þm. (G. Sv.) þennan kost hjá núverandi stjórn? Hví vill hann þá ekki vísa máli þessu til stjórnarinnar, og láta hana svo taka þá tvo fyrverandi ráðherra, háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) og háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.), sjer til aðstoðar? Þá eru það alt kunnugir menn, sem að verkinu vinna.

Þá þótti mjer það líka undarlegt, er sami háttv. þm. (G. Sv.) talaði um, að jeg væri að verja stjórnina. Fyrir hverju ætti jeg að verja hana? Hinn háttv. þm. (G. Sv.) hefir sjálfur lýst yfir því, að hann væri ekki að ráðast á hana. Hví skyldi jeg þá vera að verja hana? Þetta hlýtur að vera ímyndun hans eða draumur. Þá er ekki hægt að verja, sem ekki er ráðist á.

Vil jeg svo að endingu fela stjórnina kærleiksríkri umsjá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).