26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Flm (Gísli Sveinsson):

Jeg skal nú ekki tala langt mál, því að orð háttv. þm. Dala. (B. J.) gáfu ekki sjerlegt tilefni til þess. Hann (B. J) komst svo að orði, að það væri ætíð skylda fjárhagsnefndar að athuga fjárhag landsins, og væri sú skylda falin í nafninu sjálfu. B. J.: Það er skylda samkvæmt þingsköpum). Það er þá af því einu, að þingsköpin nefna hana fjárhagsnefnd. Eftir þeirri röksemdafærslu ætti þá sú háttv. nefnd, sem hann hefir verið í undanfarið og er enn, fjárveitinganefndin, ávalt að leita allra bragða til að veita fje úr landssjóði, þótt engin fjárbeiðni lægi fyrir. Nú, jæja! Þetta „smakkar“ nú óneitanlega dálítið af því, sem menn hafa getað látið sjer detta í hug um háttv. þm. (B. J.), en jeg hjelt ekki, að slík nafnaskýring myndi koma beint fram hjer á þingi.

Jeg taldi, að kunnugir menn væru starfhæfastir í þessa nefnd sem aðrar, ef unt væri að fá þá. Þessu mótmælti háttv. þm. Dala. (B. J.) ekki, en vísaði til þess, að málið ætti helst að ganga til núverandi stjórnar, því að hún væri málinu hvað kunnugust. Það getur nú vel verið, að stjórnin sje málinu kunnugust, og er enda rjett sjálfsagt. En sú var nú ekki ætlun flutningsmanna að þingmenn afsöluðu sjer rjetti sínum til að rannsaka málið sjálfstætt, sem gert er ef máli er vísað til stjórnar. En ef málinu yrði vísað til stjórnarinnar, sem hjer á sjálf hlut að máli, þá er öfugt að farið, og þá er málið ekki rannsakað. En tilgangur þessarar till. er ekki sá einn, að varpa allri sinni áhyggju upp á stjórnina; að minsta kosti skil jeg ekki hlutverk mitt svo, en þar með er vitanlega ekki útilokað, að stjórn geti komist að rjettri niðurstöðu um ýms atriði.

Fleira var ekki í ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), sem máli skifti, því að hvað sem hann segir um sókn og vörn, þá er það út í hött, þar sem jeg hefi ekki verið að ásaka stjórnina neitt á þessu stigi málsins. Hver bar það á hann, að hann væri að verja stjórnina? (B. J.: Jeg vildi slá varnaglann). Varnagla við hverju? En af varnöglunum má einmitt oft ráða í, hverjir aðalnaglarnir eru í málunum.