26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (1482)

18. mál, verslunarframkvæmdir

Bjarni Jónsson:

Mikið rjett, og auðráðið, hver hjer er mestur naglinn.

Háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) talar um það sem býsn nokkur, að fjárveitinganefnd veiti fje hve nær sem er. En hann má þá vita hjer eftir, að fjárveitinganefnd ber skylda til að athuga það á hverju þingi, hvar þarf að veita fje. Vona jeg, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) neiti ekki þessu. Vil jeg því biðja hann að gæta sín betur næst, er hann gerist slíkur málflutningsmaður sem nú. En jeg leiddi það af orðum hans um kunnugleikann, að eins vel mætti fela þeim þm. að rannsaka þessi mál, sem fást við þau nú, eins og öðrum, sem fengust við þau fyrir 2—3 árum. Þeir eru alveg jafnfærir til þess frá öðru en formlegu sjónarmiði.

Hvað því viðvíkur að verja stjórnina, þá býst jeg við, að talað verði um það siðar á þingi, og skal jeg þá svara honum.