24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

19. mál, fjárhagsástand landsins

Bjarni Jónsson:

Það gleður mig, að jeg þarf ekki að deila við hv. sessunaut minn (S. St.). Jeg hafði hugsað, að hann myndi mæla harðara. Þó eru hjer í einstök smáatriði, sem jeg er honum ekki meir sammála um nú en áður. Er það þó ekki beint í sambandi við till., þar sem hann lagði áherslu á, að ekki sje halli í fjárlögum. Það hefi jeg aldrei getað lagt þunga áherslu á, af þeim ástæðum, er hann nefndi, að tekjur hafa jafnan reynst meiri en áætlað var. Það er jafnan bægt að búa til halla, með því að áætla gjöldin of hátt en tekjur of lágt, og draga sig með því á tálar og álíta ófært að samþykkja útgjöld til nauðsynlegra framkvæmda.

Jeg ætla, að svo hafi og reynst að þessu sinni, að tekjur hafi farið fram úr áætlun, en auðvitað hafa gjöldin einnig reynst meiri, sakir ýmissa fjárveitinga utan fjárlaga. Og það er satt, að rjettara væri að taka allar fjárveitingar upp í fjárlögin, en leggja minni áherslu á hitt, að gera fjárlögin hallalaus úr garði.

Jeg skal ekki um það deila, hvort fjáhagsútlitið sje glæsilegt eða ekki. En hitt er ljóst, að eigi er einhlítt að hugsa um fjárhag landssjóðsins, því að hagur alls landsins getur verið undir því kominn að spara ekki landssjóð og nota sjer lánstraust hans, til þess að halda lífi í mönnum og fjárstofni. Það er betra, að landssjóður skuldi, heldur en að landsmenn og bústofn svelti og falli úr hungri. Ef þjóðin lifir af óáran, þá er hitt minna, þótt illa standi heima töludálkar í landsreikningunum. Líf og heilsa þjóðarinnar er miklar tekjur fyrir framtíðina. Með því eru fleiri til þess að vinna upp fjárhagsskaðann, sem getur verið mikill, en þó ekki versti skaðinn. Líf þjóðarinnar er meira vert en peningar hennar. Það getur stundum verið töluvert dýrt að spara.

Setjum svo, að sú skoðun hefði haldið áfram að ríkja, að það væri of mikil áhætta að leggja út í skipakaup, og að svipað hefði orðið hjá oss nú eins og á dögum Guðbrands biskups, þegar málsmetandi menn skrifuðu konungi og báðu hann að leyfa ekki þann gapaskap, að Guðbrandur hefði skip í förum.

Hefði slík skoðun ríkt, myndi það hafa orðið til þess, að enginn hefði þorað að kaupa skip. En þegar styrjöldin tók að herða að, sáu menn, að ekki varð hjá því komist.

Það er alls ekki rjett, sem menn halda um landssjóð, að aldrei megi sjást neinn tekjuhalli í bókum hans; þvert á móti getur það komið til athugunar, hvort það geti ekki verið alveg nauðlegt, að þar sje stundum tekjuhalli, eins og nú er, og hvort ekki sje nauðsynlegt að hafa tekjuhalla í framtíðinni, til þess að bjarga þjóðinni. Það verður aldrei aðalatriðið að sjá um, að tekjur og gjöld standi heima í reikningum landssjóðs, heldur að sjá um, að sá kostnaður, sem landssjóður ber, fari til einhvers, sem gagn er að.

Hvað hina háttv. nefnd snertir, þá skal jeg geta þess, að mjer þótti vænt um að heyra, að háttv. þm. (S. St.) ætlaði henni að drepa niður hviksögum, sem hann hefir heyrt um aðgerðir landsstjórnarinnar. Það gleður mig, að hann hugsar svo mikið um þá menn, sem í stjórninni eru, enda þótt það sje ekki nema eðlilegt að vissu leyti, því að hans flokkur á einn manninn í stjórninni, og einmitt þann manninn, sem mestu getur ráðið, og því eðlilegt, að hann vilji slá þær niður, ef nokkrar eru, og ekki nema gott, að þær þagni. En jeg verð að geta þess, að jeg hefi engar heyrt, og þó að gáskafullar greinar standi í ýmsum blöðum, sem oft verður milli jafnaldra manna, þá þarf ekki að kjósa nefnd á Alþingi til þess að slá þær niður.

Svo sagði hv. þm. (S. St.) að þetta væri til þess að túlka vilja meiri hluta deildarinnar og til þess, að deildin og almenningur fengi nákvæmt yfirlit yfir einstök atriði. Það kann rjett að vera, að það sje vilji almennings og meiri hl. þessarar háttv. deildar að fá slíkt yfirlit, en nú hefir háttv. deild fengið allgreinilegt yfirlit hjá hæstv. fjármálaráðherra um einstök atriði, og reikningar landsverslunarinnar sýna, hvernig hagur hennar muni standa, svo að það ætti þess vegna ekki að þurfa að kjósa neina nefnd, eða vísa til sjerstakrar nefndar, til þess að fá þetta yfirlit. Það er öllum vitanlegt, að þessi starfi heyrir undir verkahring fjárhagsnefndar, og hefði því dugað að stinga því að nefndarmönnum einslega að gæta nú vel skyldu sinnar á þessu þingi. — En enginn skilji orð mín svo, að jeg álíti, að af þessu stafi nokkurt tjón fyrir stjórnina sjálfa.

Háttv. þm. (S. St) sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að aldrei lægi meira á að spara en nú og að hann vildi vísa frá öllum fjárbeiðnum, sem ekki væru beinlínis til bjargráða fyrir landið. En hjer kemur líka annað til greina. Landið getur vel þurft á meira lánstrausti að halda, og þess vegna er sjerstaklega ástæða til þess að gera ekkert það, er spilt geti fyrir því. Það er varhugavert að tala mikið um hið hörmulega fjárhagsástand landsins, því að það getur viljað til, að þeir útlendir sendimenn eða ræðismenn —, sem hjer eru, sjái þetta, og geti þeir verið fljótir til eins og ræðismenn eru vanalega — að skýra sinni stjórn frá því, að hjer væri ekki alt sem hreinast, og er mjög líklegt, að þetta gæti orðið til mikils ógagns fyrir landið, þegar það er borið fram af mikils metnum fjármálamönnum. Jeg hefi t. d. heyrt, að annar bankastjóri sá, sem hjer er ræðismaður Svía, hafi látið það í ljós, að verið gæti, að slíkt yrði landinu ekki til ábata, ef það væri notað, og þykir mjer líklegt, að landinu yrði ekki meiri hagur að því en þeim sparnaðarþulum, sem þessi háttv. nefnd kynni að þylja hjer innan þings.

Annars er hjer ekki þörf á annari nefnd en fjárhagsnefnd, því að hjer er ekki farið fram á, að hún fari út fyrir sinn verkahring, heldur gegni skyldu sinni, svo að nefndin getur vel tekið það illa upp, að mönnum þyki þurfa að knýja hana til þess að vinna skylduverk sín.

Jeg vil þá loks geta þess, að jeg segi þetta án þess að vilja á nokkurn hátt draga úr þeirri varfærni, sem háttv. flm. (S. St) leggur til að höfð sje, og án þess að mjer detti í hug að óska þess, að öllu fje landsins verði ausið út, þá verð jeg þó að geta þess, að fleira þarf að varast en eyðslu, t. d. að skemma lánstraust sitt. Mætti þá minna á, að mörgum þykir það af ýmsum ástæðum illa farið, að stjórnin tók lán í Danmörku síðast; mundi margur hafa glaðst af því að sjá að lánstraustið væri opið, og að hægt væri að fá annarsstaðar lán til þess að geta borgað það, sem þyrfti, en hvað till. þessa snertir, þá hygg jeg, að hún miði eigi til þess að auka lánstraust landsins. Og ef það er satt, sem háttv. þm. (S. St ) sagði, að fje væri ekki til, þá er það ekki fyrsta sporið til þess að ráða bót á því, að segja sem svo, að hjer sje alt á fallanda fæti. (S. St.: Það sagði jeg ekki). En hv. þm. (S. St.) sagði þó, að þetta væri gert til þess að benda alþýðu á, hvernig ástandið væri, en hverjar orsakir væru til þessa ástands, það hafði hann engin orð um.

Annars tel jeg hjer enga hættu á ferðum, aðra en þá, sem af því hlýst, að þessi till. er komin fram, og væri þeim mönnum, er líkt hugsa og háttv. flm. (S. St.), varlegra að láta slíkar till. koma fram leynilega, svo að ekki þurfi að prenta till. þeirra, sem svo sjeu opinberlega ræddar hjer í þingsalnum.