24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

19. mál, fjárhagsástand landsins

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg get sagt, að öll ræða háttv. þm. (B. J.) snerti mjög lítið þau fáu orð, sem jeg sagði, með því líka að þau koma ekki þessu máli beinlínis við.

Háttv. þm. (B. J.) virtist enn þá gleðja sig við þá von, að tekjurnar mundu í framtíðinni reynast meiri en áætlað væri, og þó sjerstaklega þegar talað væri um það fjárhagsár, sem nú stendur yfir. En jeg er hjer á alt annari skoðun en hann, og hygg jeg, að sárfáir deildarmenn muni hafa þá von, að svo muni úr rætast, sem hann sagði, og jeg sný ekki aftur með það, sem jeg sagði, að það mundi ekki skemma lánstraust landsins út á við, að við hjeldum okkur sem mest við bjargráðaráðstafanir inn á við. Mjer er það mikil ráðgáta, hvernig till. sú, er hjer er fram komin, getur skemt lánstraust landsins, eða er má ske rjettara, að það segi sig meira en það er, einungis í þeim tilgangi að auka lánstraust sitt, þótt það má ske viti, að alt sje á fallanda fæti hjá því?

Við vitum mörg dæmi þess, að þeir einstaklingar eru til, sem bera sig mjög mannalega, ganga milli lánsstofnana landsins og prakka sjer út lán með ýmsum, og stundum miður heiðarlegum, ráðum, en reynast svo, er að skuldadögunum kemur, alt aðrir menn en þeir þóttust vera.

Jeg álít, að ef þing og stjórn ætti að taka upp þá reglu, þá yrði það ekki til þess að vernda lánstraustið og auka það út á við, heldur miklu fremur til þess, að hún misti það einn góðan veðurdag.

Þótt það sje ekki beinlínis nauðsynlegt í „normal“-úri, að fjárlögin sjeu tekjuhallalaus, þá álít jeg það þó mikilsvert snið á fjárlögum vorum, að tekjuhallinn sje sem minstur og að frestað sje þeim útgjöldum, sem helst mega bíða; það er ekki meira en það, sem hver og einn góður búmaður gerir í slæmu ári; þá dregur hann úr þeim útgjöldum, sem helst mega bíða, án þess að það verði beinlínis til skaða fyrir búskap hans. Þessi búskaparregla er svo góð, að sjálfsagt er fyrir okkur að fylgja henni.

Það er ekki heldur rjett, að þessi till. hefði aðallega verið borin fram til þess að slá niður hviksögum, sem jeg reyndar skal játa að jeg hefi heyrt, þó að háttv. sessunautur minn (B. J.) hafi ekki heyrt þær. Aðaltilgangurinn var það að fá sem glegst yfirlit yfir fjárhaginn og fá að vita, hvernig þeim liðum hefði verið varið, sem mest orsaka tekjuhallann, og að sú till. geti á nokkurn hátt spilt fyrir lánstrausti landsins, það get jeg ekki skilið, því að jeg held, að það sje best, eins og jeg tók fram áðan, að koma til dyranna eins og maður er klæddur.

Annars fór háttv. sessunautur minn (B. J.) fremur mildum orðum um ræðu mína, en þó naumast eins mildum og mjer fanst hún gefa tilefni til.