01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1498)

81. mál, launamál

Pjetur Ottesen:

Afleiðingin af nefndarkosningu mundi verða sú, að þetta launamál kæmist inn í þingið eins og það er sig til. Enda virðist svo á sumum að heyra, að það eigi ekki illa við.

Jeg skal fúslega viðurkenna, að margir embættismenn hafa mist mikils í á þessum tímum. En þess ber og að gæta, að útlitið hjá öðrum stjettum landsmanna er ekki heldur glæsilegt. Einhver takmörk verður að setja fyrir launahækkun. En ef nefnd verður kosin, drífur þetta alt inn á þingið. Jeg vildi fyrirbyggja, að málið yrði tekið til meðferðar á þessu aukaþingi. En hjá því verður sennilega ekki komist, og álít jeg landsstjórninni um að kenna, því að alt er þetta runnið frá frv. hennar. Ef ekki verður hjá því komist, að eitthvað verði aðhafst í þessu máli, álít jeg, að fjárveitinganefndin geti gert það. Engin ástæða til að kjósa sjerstaka nefnd. En þar sein háttv. frsm. (P. J.) sagði, að nefndina ætti að kjósa með sjerstöku tilliti til þessa máls, þá má minna á það, að fjárveitinganefnd hafði þessi mál til meðferðar 1916. Jeg álít því rjett vera, að fjárveitinganefnd verði falið málið, ef nefnd verður valin á annað borð.