14.05.1918
Neðri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Framsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg skal nú ekki lengja umr. mjög mikið; það eru að eins nokkur atriði, sem hafa komið fram síðan jeg talaði í gær, sem jeg vildi minnast nokkuð á.

Hæstv. fjármálaráðherra spurði um það í gær, hvort ekki bæri að skoða ákvæði viðaukatill. minnar við brtt. á þgskj. 89 í gildi jafnlengi og dýrtíðarlögin, og liggur það í augum uppi, að svo er, enda bendir orðalag till. ótvírætt á það, og þarf jeg víst ekki að skýra það nánar.

Þá vil jeg minnast örlítið á þau atriði, sem fram hafa komið hjá öðrum háttv. þm. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) drap á það, að hann gæti ekki fallist á till. minni hl. vegna þess, að þær gengju of langt. Um brtt. hans þarf jeg ekkert að segja, því að þær ganga í líka átt og mínar, og þykir mjer vænt um það, að ekkert verulegt ber okkur á milli, en að brtt. mínar gangi lengra en hans, er að eins að nokkru leyti, aðallega þar sem talað er um bráðabirgðalán til sjávarútvegs, en þar með meina jeg, að landsstjórnin veiti nokkurn gjaldfrest á slíkum nauðsynjum, ef þörf krefur. Jeg hygg, að slík fyrirgreiðsla geti orðið mjög mikið til að ljetta undir með atvinnuveginum, og gæti meira að segja forðað frá því, að fjenu væri varið í eitthvað, sem borgaði sig síður. Hins vegar tók jeg það fram, að það væri meining mín, að gætt væri fylsta hófs, en taldi gott, að heimildin væri fyrir höndum, enda bygg jeg, að það hafi komið í ljós á síðasta vori, að gott hefði verið, að heimild hefði verið til þessa fyrir landsstjórnina. Annars finst mjer, að brtt. háttv. þm. (G. Sv.) gangi að nokkru leyti í þessa átt.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að háttv. frsm. meiri hl. (P. J.), og skal jeg reyna að vera stuttorður um þau atriði, sem hann mintist á, enda þótt hann dræpi á margt og jeg þyrfti að svara miklu af því. Hann byrjaði ræðu sína á því, að það, sem mig og meiri hl. greindi mest á í þessu máli, væri blærinn á till. meiri hl., en jeg tók það þegar fram í gær, að það er ekki það, sem okkur greinir mest á um, heldur sá meginstefnumunur, sem er á milli skoðana meiri og minni hl., að meiri hl. vill ekki á nokkurn hátt veita nokkurn stuðning nema að eins með lánum. Þar greinir meiri og minni hl. mjög mikið á. Miklu meir en háttv. frsm. meiri hl. (P. J.) vildi gefa í skyn. Það er ekkert verið að tala um að veita fje úr landssjóði, nema þess sje full þörf. Ákvæðin um það eru svo ljós, bæði hjá meiri og minni hl., að það er öllum ljóst, hvert stefnt er.

Þessi rannsókn, sem háttv. meiri hl. vill koma á, er mjög gagnslítil, þegar skilyrðin fyrir lánum eru svo ströng, að þeim hlýtur að verða framfylgt; það verður alls ekki komist hjá því fyrir þá, er biðja um lán, að gefa þær upplýsingar um nauðsyn slíkra fjárbóna, sem tilskildar eru.

Stjórninni er ætíð innan handar að fullvissa sig um, að full þörf sje fyrir fjeð, áður en hún lætur það af hendi. Þessi skoðun er því ekkert annað en kák, fyrst að skoðunarmennirnir eiga ekki að fara heim á heimilin. Menn geta nú líka farið nærri um það, hve mikið væri að marka eftirlit þessara manna, t. d. í fjölmennum kauptúnum, eins og í Reykjavík. Og fyrst það er nú meining háttv. meiri hl. að skoðunarmennirnir fari að mestu eftir umsögn fátækranefndanna um, hvernig ástandið er, og þeir eiga að taka það trúanlegt, því má þá ekki láta umsögn fátækranefndanna nægja? Er slík umsögn nokkuð ábyggilegri, þótt þessir skoðunarmenn flytji hana til stjórnarráðsins? Jeg held, að hún væri jafnábyggileg, þó að hún kæmi án nokkurs milliliðs frá fátækranefndum til stjórnarráðsins. Og því á þá að raunalausu að baka sveitar- eða bæjarfjelögum þennan kostnað, sem af skoðuninni leiðir. Umsögn þessara manna verður því ekkert annað en umsögn hlutaðeigandi sveitarnefndar, og hefir því ekkert meira gildi Hætt er líka við, að menn muni verða allþurfandi orðnir, þeir sem á annað borð þurfa á hjálp að halda, þegar skoðuninni er lokið. Við skulum t. d. líta á, hvernig fara mundi hjer í Reykjavík, hvílíkur tími gengi til þess, þar sem ókunnugir menn eiga að fara að rannsaka ástæður manna í bænum. Jeg vildi að minsta kosti ekki láta skipa mjer slíkt verk, og þó að háttv. frsm. meiri hl. (P. J ) væri skipaður til þess, ímynda jeg mjer, að hann myndi biðjast undan því. Og það lái jeg honum ekki.

Þá drap háttv. frsm. meiri hl. (P. J.) á það, að honum hefði oft fundist jeg skilja sig mörgum betur og að honum hefði fallið vel að vinna með mjer í nefndum. Mjer þótti nú vænt um þau orð hans, því að okkur hefir ætið komið vel ásamt, en jeg held, að það sje ekki af neinu skilningsleysi frá minni hendi, að okkur ber nú á milli. Mjer finst hann nú vera allur annar maður heldur en hann er vanur að vera, ekki eins víðsýnn eins og hans er venja.

Þá drap háttv. frsm. (P. J.) á það atriði, að við hefðum ekki ráð á að gera mikið fyrir almenning, og því yrði að hafa till. mjög svo þröngar. Þetta er alveg rjett; því miður er svo ástatt með okkar búskap. En jeg held nú, að hvorki till. meiri nje minni hl. sjeu svo víðtækar, að nokkur ástæða sje til þess að óttast misbrúkun á fje landssjóðs samkvæmt þessum lögum.

Að málið eigi að vera í einhverskonar meðaumkvunarþoku hefi jeg aldrei óskað eftir, enda hygg jeg, að till. háttv. meiri hl. sjeu þannig úr garði gerðar, að þær hafi ekki á sjer neinn meðaumkvunarblæ. Og jeg hygg, að till. minni hl. sjeu svo ljósar, að auðsætt sje, hvert stefnt er, og engin ógnar meðaumkvun, sem lýsir sjer í þeim, því miður.

Það er ætlunin með þessum lögum, að stjórnin forði fólki frá hungri og harðrjetti, þar .sem það vofir yfir. Liðsinni landssjóðs við almenning er nú ekki meira. Jeg mundi hafa kosið, að frekari ívilnanir hefðu verið gerðar, ef þess hefði verið nokkur kostur.

Um það atriði, sem háttv. framsrn. meiri hl. (P. J.) drap á, að jeg teldi meiri hl. svifta þau hjeruð stuðningi, sem geta ekki sjálf bjargast, get jeg ekki annað sagt en að mjer finst það liggja í augum uppi. Hann vill ekki veita neina hjálp nema með lánum, og lána þá fyrst, er alt er að fara í kalda kol.

En eins og jeg hefi áður tekið fram, þá er það beint skaðræði að ganga svo nærri gjaldþoli eins sveitarfjelags, að við borð liggi, að efnamennirnir ætli að flýja úr sveitinni. Ef stuðningi til sveitar- eða bæjarfjelaga er hagað á þann hátt, þá verður það svo í reyndinni, að landið þarf að borga tíu peninga fyrir einn. Það myndi nægja einn peningur, ef bæjarfjelagið fengi hjálp í tíma til þess að halda í rjettu horfi, í staðinn fyrir að ekki veitir af tíu, ef ekki er farið að hjálpa fyr en alt er að lenda í kaldakoli. Auk þess hefði landssjóður ekki efni á að reisa heil sveitarfjelög við aftur. Hitt veit jeg ósköp vel, að háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) vill hjálpa fólki, svo að það geti lifað.

Um það atriði, sem háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) bar dálítinn kvíðboga fyrir, ef þessi hjálp væri veitt, sem stjórnarfrv. gerir ráð fyrir, mundi sveitarfjelögunum lánast að smeygja inn undir dýrtíðarráðstafanirnar ýmsum gjöldum, sem ekki koma þeim beinlínis við, þá hygg jeg að það sje engin hætta á því; til þess þarf ekki annað en að heimta eldri reikninga bæjarfjelaganna. Á þeim má nokkuð sjá, hvernig gjöldunum er varið; með þeim athugunum má sjálfsagt sannfæra sig um, hvort óskir sveitar- eða bæjarfjelagsins eru á rökum bygðar.

Þá drap háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) á nokkur atriði snertandi Reykjavík, út af þeim styrk, er landssjóður veitti síðastliðinn vetur, sem sýnishorn þess, hve mikið fje þyrfti, þegar hjálpa ætti fjölmennum bygðarlögum. Þetta er alveg rjett, en aftur hefi jeg nokkrar athugasemdir að gera við reikningsfærslu háttv. framsm. meiri hl. (P. J.). Hann talaði um, að 214.000 kr. hefðu gengið til Reykjavíkur í afslætti á kolaverði, en það er ekki rjett; það voru ekki nema 91.720 krónur, því að það er ekki rjett að reikna smálestina á 300 krónur; þegar talað er um fjárframlag landssjóðs, verður að reikna hana á 200 krónur, eða því sem næst. Landssjóð kostuðu kolin ekki meira. (P. J.:Má jeg spyrja: Átti Reykjavík kost á þessum kolum annarsstaðar frá fyrir 200 krónur?). Jeg sagði, að ef talað væri um, hvað landssjóður hefði skaðast í beinum fjárútlátum, þá eru það þó ekki nema ca. 91.720 krónur, er til Reykjavíkur hefir gengið. Og til enn frekari árjettingar þessu vil jeg leyfa mjer að benda á, hverjum það er eiginlega að þakka, að landssjóður fjekk þessi kol á 200 krónur smálestina. (P. J.: Það kemur ekkert málinu við; háttv. þm. (J. B.) er altaf út í öfugum hlutum, sem ekkert snerta málið). Jú, það kemur málinu einmitt við. Landið fjekk þessi kol beinlínis fyrir það, að togararnir voru seldir. Og hvaðan voru þeir? En það, sem háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) drap á, að auk þessa hefðu farið til dýrtíðarvinnu ca. 300 þús. kr., þá er það alveg rjett, en þess má geta, að mikið af þessu er lán, og vinnan, sem unnin hefir verið fyrir landssjóðsreikning, er þó allmikils virði, en ekki dettur mjer í hug að telja annað en að þetta hafi verið mjög mikill stuðningur.

Þá drap háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) á eitt atriði í brtt. mínum, lán til sjávarútvegs, og gat þess, að ekki hefði verið rætt um það í nefndinni. Það er að vísu rjett, að það var ekki rætt um það í þeirri mynd, sem það kom fram í till. mínum, en í nefndinni var talað á víð og dreif um ýms atriði, er snertu þetta mál. Og eftir því, sem fram kom í nefndinni, þá bjóst jeg ekki við, að meiri hl. mundi hreyfa þessu, og því ber jeg það fram. Jeg ætlast ekki til, að þetta sje lánað nema stutta stund, gegn tryggingu. Jeg tel, að það mundi mjög mikið ýta undir menn með að stunda sjávarútgerð, og er það mjög þýðingarmikið.

Hvað það atriði snertir, að jeg hafi ekki farið alveg rjett með orð háttv. meiri hl. um það, hvað landssjóði hefði áskotnast af stríðsgróða einstakra manna, þá held jeg, að þar hafi jeg ekki hallað rjettu máli. Jeg gat þess, að landssjóður mundi ekki hafa látið úti meira til dýrtíðarhjálpar almennings en hann hefir fengið af verðhækkunartollinum, eða ekki svo að neinu verulegu næmi. En landssjóður hefði getað aflað sjer enn meiri stríðsgróða, ef vel hefði verið á haldið. Það var einmitt yfirsjónin hjá Alþingi í byrjun ófriðarins, að ekkert var gert til þess að afla landinu tekna, að menn, sem fengu mikinn stríðsgróða, greiddu ekki neitt gjald í landssjóð. Reyndar hefði landssjóður fyrir löngu getað verið búinn að afla sjer mikilla tekna, svo að hagur hans hefði nú staðist vel. Útlendu síldarkóngarnir hefðu verið mátulegir til þess að greiða allmikið gjald til landssjóðs. Þeir gerðu bændum því nær ómögulegt að fá fólk til heyvinnu að sumrinu, sópuðu að sjer verkafólkinu, unnu að eins um hásumarið hjer, guldu að vísu þessa stund hátt kaup, fóru svo, þegar haustaði, heim til sín með margra miljóna króna gróða, skattfrjálsir að kalla. Þeir veittu enga atvinnu að vetrinum verkafólkinu, svo að það var atvinnulaust að vetrinum, og jeg er hræddur um, að sumarkaupið hafi þá hrokkið skamt. Dvöl þessara manna var því öllum landsmönnum til stórtjóns.

Þá drap háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) á dýrtíðarskattinn, sem feldur var á síðasta þingi. Þar var jeg nú á sömu skoðun og háttv. framsm. (P. J.), svo að við getum ekki sakað okkur um það, þótt hann væri feldur.

Háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) drap á Dani og ráðstafanir þeirra. Þeir hafa gert mikið til þess að halda vöruverði niðri og kaupgjaldi, og atvinnuvegir þeirra munu ganga furðu líkt og á friðartímum. Þar hafa þeir nú notið sinnar fyrirhyggju um að afla landinu tekna í tíma. Gætu þeir í því efni verið okkur til fyrirmyndar.

Háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) mintist á dýrtíðarvinnuna, sem landsstjórnin ljet framkvæma í vetur, og kvað þær ráðstafanir stjórnarinnar hafa sætt hörðum dómum í blöðum, og eins ljetu menn hjer í ljós mikla óánægju yfir vinnunni. Það er nú sjerstaklega ein grein, sem birtist í einu blaði snemma í vetur, sem beinlínis taldi alt liðsinni frá landssjóðs hálfu til handa almenningi mesta óþarfa. Fjárhagur almennings hefði verið svo góður, að menn hefðu vel getað bjargast á eigin spýtur, án nokkurs stuðnings. Þingið var beinlínis vítt í þessari grein fyrir afskifti sín og ráðstafanir af dýrtíðarmálinu, fyrir það, sem það gerði til handa almenningi. Greinarhöf. bygði ummæli sín aðallega á því, hve sparisjóðsfje hefði vaxið í bönkunum, og taldi, að í sama eða líku hlutfalli hefðu efni almennings aukist. Allir sjá, að þetta nær nú ekki nokkurri átt. Það er öllum kunnugt, hve nauðsynjavörur og verkakaup hefir hækkað misskjótt og mismikið, kaupið ætíð mikið minna og seinna. Af því er ljóst, hvílík fjarstæða þetta er. Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta frekar. Jeg býst við, að þeir einir haldi þessu fram, sem lítt eru kunnir högum almennings. Jeg vil ekki ætla neinum svo ilt, að hann segi þetta eða þessu líkt gegn betri vitund, þegar útlitið er jafnalvarlegt eins og það hefir verið nú í seinni tíð.

Viðvíkjandi því, er háttv. framsm. meiri hl. (P. J.) sagði, að einstakir menn hjer í bænum teldu þessa dýrtíðarvinnu landsstjórnarinnar óþarfa, er það að segja, að jeg er þess fullviss, að slík ummæli koma að eins frá einhverjum þeim, er hafa nóg fyrir sig að leggja, og þeim hinum sömu er þá vafalaust ekki mjög sárt um afkomu annara. Og hverjir eru þessir menn, sem á bak við bera slíkar sögur sem þessar? Það væri vel við eigandi og nokkurs virði, að það upplýstist. Fátæklingarnir í kauptúnunum gætu þá fært þeim þakkir næsta vetur, ef þessir menn valda því nú, að lítið eða ekkert verður gert til hjálpar almenningi nú á þessu þingi.

Um það atriði, sem háttv. frsm. meiri hlutans (P. J.) drap á, viðvíkjandi atvinnubótunum, að það gætu bæjar- og sveitarfjelög leyst eins vel af hendi og landið, þá er því að svara, að ef geta bæjar- og sveitarfjelaga væri svo mikil, að þau gætu veitt alþýðu manna atvinnu, þá kæmi það nokkuð í sama stað niður, en nú vantar þau getuna til þessa, af því að þau hafa ekki nægilegt bolmagn til að setja svo mikið fje fast, sem til þessa þarf.

Annars verð jeg að segja það, að jeg get ekki betur sjeð en að þessar brtt. meiri hlutans sjeu algerlega óþarfar, því að ef ekki er veittur frekari styrkur heldur en þær fara fram á, þá ber landsstjórnina bæði lagaleg og siðferðileg skylda til að veita styrkinn samkvæmt sveitarstjórnarlögunum, því að þar stendur, að landið verði að hjálpa þeirri sveit, er hallæri er í og þarf því ekki að fara að semja ný lög um það.

Hæstv. forsætisráðherra vjek að því, að það væri sameiginlegt með meiri og minni hluta, að styrkurinn, sem sveitar- og bæjarfjelög fengju úr landssjóði, væri lántaka hjá honum, og taldi hann það óheppilegt, þar eð landssjóður væri engin lánsstofnun, en þess ber að gæta, að komið getur það fyrir, að sveitar- og bæjarstjórnir geti ekki fengið lán hjá innlendum peningastofnunum, og því væri það óvarlegt að heimila ekki samskonar lán og hjer er farið fram á, í lögum sem þessum. Hins vegar get jeg fallist á, að stjórnin mundi veita lán, er alt væri komið í stakasta neyðarástand. En jeg teldi rjettara, að þetta kæmi fram í lögum um þetta efni, sem Alþingi hefir samþykt, og því hefi jeg tekið þetta atriði upp í till. mínar.