21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

36. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A) gerði mikið úr misrjetti, sem þessi lög mundu skapa, og nefndi hann í því sambandi víxla, sem bankarnir kaupa, og svo aftur víxla, sem einstakir menn kaupa. Það er satt, að nokkurt misrjetti kemur hjer fram, en þetta tekur því nær eingöngu til víxla, og er sannarlega ekki mikið úr því gerandi, því að langflestir víxlar eru seldir lánstofnunum og verða þá stimpilskyldir. önnur verðbrjef verða menn undir flestum kringumstæðum að láta þinglesa fyr eða síðar, til þess að tryggja rjett sinn. Mig furðar á, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) skyldi ekki koma með þessar mótbárur gegn frv. þessu í fyrra, þegar þetta mál var til meðferðar hjer í háttv. deild. Þá hreyfði hann engum andmælum, en nú snýst hann alveg á móti.

Um lögin um málskostnað sagði sami hv. þm. (E. A.), að dómstólarnir hefðu eftir þeim smugu til að láta málskostnað eigi falla á þann, sem ynni málið, en þetta gildir að eins þegar úrslit eru vafasöm, og þegar svo stendur á, er ekki nema sanngjarnt, að málskostnaður falli niður, og eðlilegt, að stimpilgjaldið lendi þá á þeim, sem höfðaði málið, úr því að rjettur hans er vafasamur.

Sami háttv. þm. (E. Á.) sagði einnig, að sjer þætti gaman að sjá þá sömu menn, sem greiddu í fyrra atkv. með að fella úr gildi verðhækkunartollslögin, greiða nú atkvæði með þessu frv.

Þessi ánægja veitist víst háttv. þm. (E. A.), en áður en hann gleður sig mjög yfir því vil jeg leyfa mjer að minna hann á, hvernig þá stóð á. Þá stóð sem sje þannig á, að hjer fyrir deildinni lá frv. til laga um tvöföldun útflutningsgjalds af fiski, sem átti að koma í stað verðhækkunartollslaganna, en þetta frv. fjell hjer í deildinni með jöfnum atkv., en þetta frv. var eitthvert hið sanngjarnasta tekjuaukafrv., sem fram hefir komið. Það stóð því alt öðruvísi á þegar verðhækkunartollslögin voru numin úr gildi en nú.