20.04.1918
Efri deild: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

13. mál, skipun bjargráðanefndar

Flm. (Magnús Torfason):

Það er óþarfi að rökstyðja till. þá, er hjer liggur fyrir, með löngu máli.

Það eru áreiðanlega sömu ástæður til slíkrar nefndarsetningar og hjer er um að ræða og voru á síðasta Alþingi, og þó, ef nokkuð er, öllu meiri nauðsyn nú, því að altaf sverfur stríðið fastara að.

Jeg ætla þó, vegna þess, að jeg mun eigi njóta þess heiðurs að eiga sæti í nefnd þessari, að taka fram nokkur atriði.

Hingað til hefir framkvæmd bjargráða vorra verið miðuð við það, að friður væri í nánd, eða að minsta kosti við það, að ófriðurinn stæði ekki árum saman. Þessa stefnu get jeg hvorki talið holla nje forsjála, því að það eru engar líkur til þess, að ófriðurinn verði um garð genginn næst er háttv. Alþingi kemur saman. Mjer finst það því vera rjett og sjálfsagt, að bjargráðanefnd hafi það fyrir augum, að stríðið getur enn staðið í mörg ár. Það getur aldrei skaðað, að hún hagi ráðstöfunum sínum eftir því, en hins vegar gott, ef fyr og vel raknar úr.

Jeg skal eigi fara langt út í það, hvað gera eigi, enda er það vitanlegt, að stjórn og þing hefir gert margt til að draga úr bölinu, og stjórnin hefir gert ýmsar ráðstafanir til þess að auka framleiðslu landsmanna. Þó vildi jeg minna á eitt atriði, og það er steinolían. Jeg fæ ekki betur sjeð en það verði að vera fyrsta og helsta verk bjargráðanefndar að gera alt sem auðið er til þess að fá næga steinolíu til landsins. Árferði til sjávar er mjög svo undir því komið, að vorvertíðin mishepnist ekki og að menn geti til fulls notfært sjer auðæfi sjávarins, en hið fyrsta skilyrði til þessa er næg steinolía, og því er oss nauðsyn á því, að bjargráðanefnd hafi atriði þetta hugfast.

Þá vildi jeg og benda á annað atriði. Það er að nota sem mest og best afurðir okkar. Við veiðum mikið af síld, en við kunnum ekki að hagnýta hana, og segja má, að Íslendingar yfirleitt kunni ekki síldarát. Liggur nærri, að telja megi það skrælingjamerki á þjóð vorri, að hún skuli ekki kunna að hagnýta sjer önnur eins auðæfi, og að nær ekkert af þeim sje notað í landinu sjálfu. Jeg vil vekja athygli bjargráðanefndar á þessu, og hún ætti að gera hvað auðið er til að kenna Íslendingum að eta síld, annaðhvort með því að fá einhverja inn í landið, er kunna að matreiða hana, eða senda fólk utan að læra það og kenna síðan öðrum.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að fara nánar út í nefndarsetningu þessa; ástæður þær, er til hennar liggja, eru sömu nú og þær voru á síðasta þingi, og vænti jeg því, að allir háttv. þm. samþ. till.