21.06.1918
Sameinað þing: 5. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1518)

103. mál, kosning samningamanna

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Mönnum er það í minni, hver orð konungur hafði um, þegar hann svaraði forsætisráðherra um fánamálið, að hann kysi heldur, að alt sambandið væri tekið til umr. Á þessa sveif munu og danskir stjórnmálamenn hafa hallast. Það er því vafalaust, að Danir eiga frumkvæðið að þeim samningum, sem nú standa fyrir dyrum.

Nú er þessum málum svo komið, að næstu daga er von á sendimönnum frá Danmörku, og vonum vjer, að þeir hafi umboð, sem með þarf, til þess að fullnægja rjettmætum kröfum vorum. Þá verður nú nauðsynlegt að skipa nefnd manna til þess að hafa á hendi milligöngu milli þingsins og sendimannanna dönsku, þar til svo langt er komið samningum, að ganga megi til atkv. um það, hvað fram skuli ganga og hvað ekki.

Nefndirnar leggja því til, að nú sje sú milligöngunefnd skipuð og skipuð 4 mönnum, og býst jeg við, að fram verði lagður listi með svo mörgum nöfnum, sem kjósa skal menn.

Þessir menn eru auðvitað einungis milligöngumenn og verða því að bera jafnóðum upp fyrir fullveldisnefndum þingsins hin meiri atriði samninganna og gefa þingflokkum færi á að athuga málið og segja sinn vilja áður en upp er borið fyrir þinginu.

Í nafni fullveldisnefndanna leyfi jeg mjer að mælast til, að till. verði samþ. og þessir menn kosnir nú þegar.