10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

Rannsókn kjörbréfs

Frsm. meiri hl. (Bjarni Jónsson):

Það hefir farið svo, að þessi nefnd, eða deild, rjettara sagt, hefir klofnað í tvent um þetta mál; þó ekki í rauninni að öllu, því að þetta kjörbrjef, sem hjer kemur, er talið fullgilt, og enginn vafi á því, að þessi maður, sem hjer ræðir um, hefir rjett til að koma sem 1. landsk. varaþm. á A-lista, þegar svo stendur á, að varamaður, lögum samkvæmt, á að koma.

Um þetta hefir nefndin ekki klofnað; en hún hefir klofnað um hitt, hvort hjer sje svo ástatt, að varamaður eigi að koma.

Meiri hluti kjörbrjefadeildarinnar hefir kosið mig til frsm. Jeg veit ekki, hvern minni hl. hefir kosið sjer frsm., en hann mun segja til sín á sínum tíma.

Jeg vil fyrst geta þess, af því að margir voru sammála um það, að okkur þótti sanngjarnt og rjett, að til væru varamenn fyrir alla þingmenn, að löggjöfinni væri svo háttað. Það er svo í Noregi, Svíþjóð og víða um lönd, og því hafa ýms fjelög og nefndir, sem menn þekkja, haft það svo, að það er ekki nema sanngjarnt og gott.

Þar sem hjer er um skýlaus ákvæði að ræða, og það í stjórnarskránni, verður ekki unt, eftir okkar skoðun, að fara eftir því, sem betur ætti við. Svo er um varamann á þessu þingi; stjórnarskráin hefir þar um mjög ákveðin orð. Það stendur á bls. 12 í kveri því, sem hjer hefir verið útbýtt meðal þm. og stjórnarskráin og þingsköpin eru í. Þar stendur: „Deyi þingmaður, kosinn óhlutbundinni kosningu, meðan á kjörtímanum stendur, eða fari frá, þá skal kjósa þingmann í stað hans fyrir það, sem eftir er kjörtímans. Verði á sama hátt autt sæti þingmanns, kosins hlutbundinni kosningu, tekur sæti hans varamaður sá, er í hlut á ...“

Hjer er skýrt ákveðið um það, að kosning getur ekki farið fram, samkvæmt stjórnarskrá Íslands, í neinu kjördæmi, nema sætið sje autt, að þm. fari frá, glati kjörgengi sínu eða hafi sagt af sjer. Það þýðir þá að fara frá, eftir þessari gr. stjórnarskrárinnar. Þá er hitt, sem hjer er um að tala: „Verði á sama hátt autt sæti þingmanns, kosins hlutbundinni kosningu ...“—Þá kemur til þess, að varamaður komi, en þá verður fyrst og fremst sætið að vera autt. Og það á að vera á sama hátt sem sæti kjördæmakosinna manna, nefnilega þannig, að kjósa megi nýjan mann í staðinn, að þm. deyi, glati kjörgengi sínu, eða hafi sagt af sjer, — þá á varamaður að taka sæti allan þann tíma, sem eftir er af kjörtímabilinu. Þetta hygg jeg sje alveg skýrt, þurfi ekki að hafa langa ræðu um það eða deila. Stjórnarskráin tekur af öll tvímæli.

Nú stendur svo á, að hjer er ekkert einasta sæti autt, enginn dauður, enginn glatað kjörgengi sínu, enginn sagt af sjer. Ef á að taka þennan háttv. mann (S. F.) inn, þá er það 41. þm. Því setjum svo, að háttv. 1. landsk. þm. (H. H.) vildi koma á þing við og við; það er honum heimilt. Því að þótt hann hafi skrifað brjef um, að bann sje heilsulaus, eða geti ekki erfiðað á þessu þingi, þá hefir hann alls ekki þar með afsalað sjer þeim rjetti, er hann fjekk þegar hann var kosinn. Hann getur komið á hvaða stundu sem er og sest í sitt sæti, og haldið því fram, að þar sem það sje hvergi bannað í stjórnarskránni, að hjer sje 41 þm., þá sje kann ske „praktiskt“ að koma á þessari venju.

Jeg hefði ekkert um þetta sagt, ef hjer hefði verið um lög að ræða, sem þetta þing gæti breytt, og veit jeg ekki, hve langt jeg hefði teygt mig, ef svo stæði á, því að mjer þætti svo miklu betra, ef lögin leyfðu, að þessi þm. (S. F.) kœmist að, en mjer er ekki hægt að brjóta stjórnarskrá landsins. Jeg hefi ekki umboð til þess frá kjósendum mínum.

Það er kunnugt, að til eru tveir löggjafaraðiljar hjer á landi, eða venjan er sú, að í framkvæmdinni eru þeir tveir. Menn gætu nú hugsað sjer, þegar annar aðilinn leyfir sjer að skýra stjórnarskrána svo sem minni hl. vill, þá myndi ef til vill hinn aðilinn, konungurinn, leyfa sjer að skýra eitthvað öðruvísi aðrar greinar hennar en holt væri; en jeg hygg, að það sje Heppilegast að koma ekki þeirri reglu á að skilja stjórnarskrána öðuvísi en ætlað var, því að það veit jeg, að þm. ætluðu sjer ekkert annað með varaþm. en að koma í veg fyrir það, að landið þyrfti að fara að kjósa aftur, þótt einn þm. dæi, enda eigi unt að kjósa einn mann hlutbundinni kosningu. Þess vegna þótti sjálfsagt að hafa varamann, sem kæmi í þeirra stað, þegar sætið væri orðið autt; ekkert annað var átt við með því; því að þar unnu eigi svo ógreindir menn, að þeir mundu þá eigi hafa kveðið skýrt á um það, að varamenn kæmu þá fyrir alla þm. í forföllum þeirra. Þessum sætum var ekki vandara um en öðrum þingsætum, og á því sjest, að tilætlun þingsins var aldrei sú, að varamaður kæmi í forföllum þm., heldur að eins þegar sætið væri autt. Þar sem nú ekki eitt einasta sæti er autt á Alþingi, getur ekki 41. þm. komist hjer að.