10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (1527)

Rannsókn kjörbréfs

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg vil gera grein fyrir því með nokkrum orðum, hvaða ástæður hafa ráðið mestu um það, að jeg er kominn á þennan stað.

Það var á þriðjudagskveld 2. þ. m., að jeg fjekk skeyti um það frá forsætisráðherra að koma suður og ef til vildi taka sæti Hannesar Hafsteins á þessu þingi, sem vegna sjúkleika væri ekki fær um að annast þingstörf, en vildi þó ekki sleppa sætinu með öllu.

Þá stóð svo á, að jeg var staddur úti á Húsavík; hafði farið að heiman sannfærður um, að þetta gæti ekki komið fyrir. Til þess að geta skroppið heim og náð svo í Lagarfoss varð jeg að hraða mjer sem mest, og þurfti því að svara strax og umhugunarlítið.

En þótt jeg hefði haft lengri umhugsunartíma, mundi jeg að líkindum samt sem áður vera kominn hjer. Jeg leit svo á, og lít svo á, að ef jeg tregðaðist við að koma suður, þá setti jeg Hannesi Hafstein þá kosti, að hann yrði að sitja á þessu þingi, sjúkur maður, eða að segja af sjer þingmensku að öðrum kosti, eða í þriðja lagi að þingsætið yrði autt.

En jeg vildi ekki verða til þess að setja þá kosti þeim manni, sem jeg álít að þjóðin eigi stærsta þakkarskuld að gjalda allra þeirra Íslendinga, sem nú eru á lífi.

Jeg veit það, að orð stjórnarskrárinnar um það atriði, sem hjer er um að tala, eru tvíræð; en að þau sjeu einræð, eins og háttv. þm. Dala. (B. J.) heldur fram, því neita jeg. Jeg veit, að bókstafurinn er engu síður á móti því, að varamaður taki sæti aðalþingmanns í svona tilfelli; en það má líka, og engu síður, segja, að bókstafur stjórnarskrárinnar sje í öllum tilfellum á móti því, að varamaður taki sæti aðalmanns, þar sem ákveðið er, að varamenn skuli vera jafnmargir og aðalmenn, en það getur ekki átt sjer stað þegar aðalmaður fellur frá, nema varamaður falli frá um leið eða annar sje kosinn í staðinn. Bókstafsskilningurinn stefnir því í ófærar ógöngur.

En á hinn bóginn hlýtur andi stjórnarskrárinnar að vera sá, að nota alla þá krafta, sem þingið á ráð á, án þess þó að misbjóða heilsu tanna.

Jeg ætla svo ekki að segja fleira um þetta. Jeg er við því búinn að taka rólega hverri niðurstöðu sem er í þessu máli. Jeg lít svo á, að jeg hafi gert skyldu mína, og það læt jeg mig skifta mestu.