10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

Rannsókn kjörbréfs

Framsm. minni hl. (Pjetur Jónsson):

Jeg ætlaði ekki að fara út í það, hver meining löggjafanna hafi verið með þessari grein, hefði ekki hv. þm. Dala (B. J.) haldið því fram, að hún hafi verið hin sama og hans nú.

Jeg minnist þess ekki, að þetta kæmi til orða í nefndinni, eða að hún hefði til umræðu, hve nær varamaður skyldi mæta fyrir þingmann.

En mjer finst greinin bera það með sjer, að hjer hafi verið farið fljótt yfir sögu. Til að sýna fram á það nægir að lesa upp bæði fyrri og síðari hluta greinarinnar (með leyfi hæstv. forseta). Hún hljóðar svo:

„Deyi þingmaður, kosinn óhlutbundinni kosningu, á meðan á kjörtímanum stendur, eða fari frá, þá skal kjósa þingmann í stað hans fyrir það sem eftir er kjörtímans. Verði á sama hátt autt sæti þingmanns, kosins óhlutbundinni kosningu, tekur sæti varamaður sá, er hlut á“.

Þegar hjer er komið, lítur út fyrir, að oss nefndarmönnum hafi alt í einu hugkvæmst, að hvergi er búið að minnast á, að varamenn skuli sitja á þingi í forföllum þingmanna, kosinna hlutbundinni kosningu, og að oss hafi þótt viðkunnanlegra að minnast á þetta dálítið meira og geta þess, að varamenn skuli vera jafnmargir. En það er auðsjeð, að við höfum verið fullmikið að flýta okkur, því að viðbótin er á þessa leið:

„ ... en varamenn skulu vera jafnmargir og þingmenn, kosnir hlutbundnum kosningum, enda kosnir á sama hátt og samtímis“.

Á þessari viðbót, sem eru hin einu ákvæði um varamennina, er furðu mikill flausturssvipur.

Stjórnarskráin er auðvitað vor merkustu lög, en samt er hún ekki gallalaus, fremur en önnur mannaverk, og miður frá mörgu gengið en mátt hefði og átt að vera. Það hefir ekki verið lögð áhersla á, að hjer stæði beinlínis „positiv“ ákvæði um varamennina, eða nákvæmari og fyllri ákvæði um það, hve nær þeir mæti. En um þetta hefðu átt að vera sjerstök ákvæði. Nú er reynslan að sýna oss það.

Ætla jeg svo ekki, að þörf sje á lengri umr., því að jeg vona, að ræður háttv 2. þm. Árn. (E. A.) og hæstv. forsætisráðherra hafi skýrt nægilega þetta mál frá sjónarmiði okkar, sem viljum, að 1. landsk. varaþm. (S. F.) taki sæti á þessu þingi í stað háttv. 1. landsk. þm. (H. H.)