10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

Rannsókn kjörbréfs

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil að eins leyfa mjer að gera grein fyrir atkvæði mínu í fám orðum.

Öllum háttv. þm. er það vitanlega ljóst, að hjer sitja þingmenn í raun og veru í dómarasæti, er þeir eiga að úrskurða mál eins og þessi, og á það því alls ekki að koma til greina, úr hvaða flokki sá maður er, sem úrskurða á um. Eftir lögunum einum verður hver og einn að sjálfsögðu að fara í þessu efni.

Jeg minnist þess, að jeg hefi áður hjer á þingi greitt atkv. um líkt mál. Þá var spurningin um það, hvort maður úr andstæðingaflokki mínum, Heimastjórnarflokkinum, skyldi taka sæti á þinginu. Mjer fundust lögin mjög ákveðið mæla með því og greiddi því atkv. með. Það var vitanlega sjálfsagt og auðvitað, að allir fari svo að.

Satt að segja er langt frá því, að jeg hafi nokkurn áhuga á að útiloka þetta háttv. þingmannsefni frá þingsæti. Hins vegar er mjer það ljóst, að í þessu máli getur það ekki komið til greina, hvort jeg vil persónulega veita leyfið, heldur að eins hitt, hversu skilja beri stjórnarskrána. Skal jeg lýsa yfir því, að í ákvæði hennar hjer að lútandi get jeg ekki lagt annan skilning en háttv. framsm. meiri hluta 2. kjörbrjefadeildar (B.J.).

Ákvæði stjórnarskrárinnar eru nefnilega mjög ljós í þessu efni. Um þingmenn, kosna óhlutbundnum kosningum, er tekið fram, að í stað þeirra skuli að eins kosið, ef þeir deyi eða fari frá. Hjer er það ljóst, að í þessu sambandi getur „fari frá“ ekki þýtt annað en að þeir hætti að vera þingmenn, því að vitanlega fer kosning ekki annars fram. En síðar í greininni segir, að varamaður taki sæti landskjörins þingmanns, ef sæti verði autt á sama hátt. Þar sem skilningurinn á „fer frá“ er ótvíræður, þá er enginn vafi á því, sbr. tilvísunina, að varamaður á engan rjett á að taka sæti nema aðalmaður sje ekki lengur þingmaður, sbr. og að sæti sje „autt“, sem getur ekki þýtt annað en að þingmann vanti í sætið.

Mjer virðist líka, þegar litið er á allar ástæður, að úr því að ekki eru til varamenn þjóðkjörinna þingmanna, að þá sje ekki full ástæða til, að varamenn landskjörnir skuli taka sætið, þótt þingmaður sje veikur um hríð. Þessir landskjörnu varaþingmenn eru settir til þess, að ekki þurfi að setja kosninga“apparatið“ á stað, þótt einn landskjörinn þingmaður deyi eða fari frá. Skilningur sá, sem hjer hefir verið baldið fram, felst því ekki að eins beint í orðunum, en er einnig í fullu samræmi við anda laganna.

Jeg vildi að eins gera stuttlega grein fyrir atkvæði mínu. Mjer virðist þessi stjórnarskrárgrein úttæmandi um það, hve nær varamaður hafi rjett til að taka sæti aðalmanns, en það er að eins þegar aðalmaðurinn er hættur að vera þingmaður, hvort sem það er dauðinn eða aðrar orsakir sem valda því.