10.04.1918
Sameinað þing: 1. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

Minnst Tryggva Gunnarssonar

Aldursforseti gekk þá til forsetastóls og mælti á þessa leið:

Áður en byrjað er á störfum þingsins að þessu sinni, vildi jeg leyfa mjer að minnast eins manns, er látist hefir eftir að síðasta þingi var slitið. Sá maður er Tryggvi Gunnarsson. Hann var fæddur 18. október 1835, dáinn 21. okt. 1917. Kosinn á þing af Norður-Þingeyingum 1869, þingmaður Sunnmýlinga 1875—1885, Árnesinga 1894—1899 og Reykvíkinga 1901—1907. Sat samtals 17 þing.

Tryggvi Gunnarsson er svo þjóðkunnur maður, að það er óþarft og yrði of langt mál að telja upp hin miklu og margvíslegu störf, sem hann leysti af hendi með sæmd. En aðaleinkenni hans voru óbilandi starfsþrek og einlægur áhugi á að vinna öðrum gagn, frábœr ósjerplægni og innileg samúð með öllu því, sem lífsanda dregur, jafnt mönnum sem dýrum og jurtum. Fyrir þessara mannkosta sakir mun minning hans lifa lengi í heiðri hjá íslenskri þjóð.

Þingmenn tóku undir ummæli forseta með því að standa upp.

Þessu næst kvaddi aldursforseti sjer til aðstoðar sem skrifara þá Sigurð Stefánsson, þm. N.-Ísf., og Þorleif Jónsson, þm. A.-Sk.