06.07.1918
Sameinað þing: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

Þingfararkaupsnefnd

Magnús Torfason:

Eins og háttv. þm. er kunnugt, þá var í einu blaði hjer gerð allfrek árás á suma þm., sem sátu á þinginu 1916—17, út af þingfararkaupi þeirra. Þetta er að vísu ekki ný bóla, því að lengi hefir við brunnið, að þingfararkaupið hefir verið notað til þess að kitla lægstu tilfinningar fólksins og til þess að klína því á fulltrúa þjóðarinnar, að þeir noti sjer stöðu sína í eiginhagsmunaskyni. Þar var fyrst og fremst ráðist á mig, og var það eðlilegt, því að það er ekki í fyrsta sinni, að það málgagn gerir árásir á mig, og var greinin vitanlega með því orðalagi, sem samboðið er slíkum skrifum og þeim frámunalega smásálarlega hugsunarhætti, sem slík skrif eru af sprottin. Jeg mundi því ekki hafa hreyft þessu, ef ekki væru sjerstakar ástæður fyrir hendi, sem jeg síðar mun koma að.

Það, sem mjer var fundið til foráttu, var það, að jeg hefði átt að reikna mjer of langan þingfarartíma, og finst mjer skylt að skýra það fyrir háttv. þm., og svo einnig til þess, að alþjóð gefist kostur á að sjá, hvernig því var varið.

Jeg hafði farið að heiman með Gullfossi 1. desember, en eins og menn muna, var þingið sett 10. desember; seinni ferð var ekki til, og varð jeg að sjálfsögðu að reikna mjer þessa níu daga fyrir þing. Þingi var slitið 10. jan., en til Ísafjarðar var engin skipsferð fyr en Botnía átti að fara í febrúar. Jeg leit því svo á, að mjer væri ekki unt að gera reikning öðruvísi en svo, að reikna mjer þingfararkaup þangað til Botnía væri komin heim til Ísafjarðar, en samt fór jeg til tveggja meðlima ferðareikninganefndarinnar og spurði, hvernig ætti að reikna þingfararkaupið, og töldu þeir, að ekki væri hægt að reikna það öðruvísi, en jafnframt því sagði jeg þeim það, að jeg áskildi mjer að taka sjerstaka ferð til Ísafjarðar, ef hún gæfist, og koma þá með annan reikning síðar, ef kostnaður yrði meiri af því. Var það vegna þess, að mjer lá á að komast sem fyrst til embættis míns, því að reikningar mínir máttu ekki bíða lengur.

Sem sagt, þegar jeg gerði reikninginn, hafði jeg enga hugmynd um, að jeg kæmist vestur fyr en með „Botníu“. En nokkru eftir þinglok komst jeg að því, að vjelbátur átti að fara til Patreksfjarðar, og varð það úr, að jeg tók mjer far með honum. Var sú för alls ekki hættulaus, um hávetur í veðrahami, enda kom svo mikill leki að bátnum, að heilan mannsöfnuð þurfti til þess að ausa hann þegar að bryggju kom. Frá Patreksfirði þurfti jeg svo að leigja bát til Ísafjarðar.

Geta háttv. þm. getið sjer nærri um, hve ódýrt það hafi verið að fá stóran bát um hávetur til jafnlangrar ferðar. Enda hrökk þingfararkaupið ekki til, og varð jeg að greiða nokkuð úr mínum eigin vasa, en jeg hirti ekki að senda aukareikning fyrir þessum fáu krónum, nenti því blátt áfram ekki.

Jeg hygg því, að litil ástæða hafi verið til þess að gera veður út af þessu. Það eru ekki þingmenn af Vestfjörðum, sem bakað hafa þjóðinni kostnað með of háu þingfararkaupi. Við höfum notað allar ferðir, sem okkur hafa boðist, hversu ljelegir sem farkostirnir hafa verið. Þegar jeg kom til þings í fyrra, ljet jeg t. d. hýrast í lest á slordollu einni. Og kunnugt er, hver farkostur okkur var fenginn nú síðast. Því fer fjarri, að jeg hefði þorað að bjóða nokkrum þurfaling eða fanga slíka aðbúð.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. En jeg fann ástæðu til þess að minnast á þetta atriði, af því að altalað er hjer í bænum, og haft fyrir satt, að greinin sje ekki skrifuð af venjulegum skúmaskotspilti, heldur sje hún eftir landskunnan mann. Jeg vil nefna nafn hans hjer, ekki af þeirri ástæðu, að jeg trúi því, að hann hafi skrifað greinina, heldur til þess, að honum gefist kostur á að bera þetta aftur. Sá maður, sem til er nefndur, er fyrv. landritari, hr. Klemens Jónsson.