06.07.1918
Sameinað þing: 6. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

Þingfararkaupsnefnd

Magnús Kristjánsson:

Það mun vera nokkuð óvenjulegt, að miklar umr. eigi sjer stað við slík tækifæri sem þetta. En þar sem umræður hafa verið hafnar á annað borð, finn jeg ástæðu til þess að segja nokkur orð. Málið snertir mig að nokkru leyti, þar sem jeg átti sæti í ferðakostnaðarnefndinni. En það kom mjer þó ekki til þess að taka til máls, heldur hitt, að jafnvel þótt ummæli háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um árásir blaðsins hafi verið rjettmæt, þá hefði hann ekki átt að taka jafndjúpt í árinni um farkost þm. nú síðast eins og hann gerði. Mjer finst það nokkuð öfgakent, að háttv. þm. (M. T.) hefði ekki komið til hugar að bjóða neinum hreppsómaga þá aðbúð, er hann hafi orðið að sæta. Slíkt eru öfgar, sem ekki eiga sjer neinn stað.

Jeg læt þetta til mín taka fyrir þá sök, að landsversluninni var falið að sjá þingmönnum fyrir farkosti, og gerði hún það svo vel, sem kostur var á. Og hafi háttv. þm. (M. T.) gert sjer að góðu að hýrast í „slordollu frá Ísafirði“, eins og hann komst að orði, þá hygg jeg, að honum hafi ekki verið misboðið með þessu skipi. En hitt er annað mál, að háttv. þm. (M. T.) hafi ekki liðið vel á leiðinni, þar sem ofveður, eða jafnvel manndrápsveður, skall á.

Jeg álít, að ummæli háttv. þm. (M. T.) hafi gengið of langt, Mjer finst þau vera móðgun í garð stjórnarinnar og annara, er útveguðu skipið. Og allir vita, að jafndýrum farmi sem háttv. þm. (M. T.) mundu menn ekki vilja hætta út á neina fleytu, og var því fenginn til hinn besti farkostur, sem völ var á, enda óvíst, hversu vel hefði ráðist um þetta ferðalag, ef ekki hefði fengist jafngott skip eins og hjer átti sjer stað.