02.05.1918
Efri deild: 11. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1599)

3. mál, fráfærur ásauðar

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vil með nokkrum orðum gera grein fyrir atkvæði mínu, þótt jeg sje ekki í landbúnaðamefndinni.

Jeg skal fyrst geta þess, að jeg er yfirleitt og nálega í flestum atriðum samdóma nefndinni, og jeg tel rjett að samþykkja hina rökstuddu dagskrá, sem hún ber fram. Jeg get vel skilið það, að hæstv. atvinnumálaráðherra falli það sárt, hversu þungar undirtektir þetta frv. fær, því jeg efa ekki, að það sje borið fram af góðum vilja, en góður vilji enga gerir stoð, ef hann er ekki bygður á skynsamlegum rökum, og fullnægingu hans fylgja engin hyggileg úrræði.

Það er auðskilið mál, að ef fráfærur verða almennar, þá þarf meiri vinnukraft til sveita en nú er, en eins og nú hagar til, án þess að fært sje frá, er vinnukraftur í sveitunum alt of lítill, og bændur kvarta mjög yfir fólksleysi. Og víða er fólksleysið svo mikið nú, að til stórra vandræða horfir ,og er brýnasta þörf á því, að á því væru ráðnar bætur. Það væri því alveg öfugt við það, sem þarf og á að vera, að fara að gera enn þá meiri vinnukröfur til bænda. Ef fært er frá, þá þurfa bændur fyrst og fremst að fá sjer smala. Hann er aðalmaðurinn, en eins og nú hagar, er varla unt að fá góðan smala; menn eru orðnir óvanir þeim starfa, en auk þess þarf fleira fólk, einkum góðar mjaltakonur. Ef smalinn er ekki starfi sínu vaxinn, þá leiðir af því, að húsbóndinn sjálfur, eða má ske besti verkmaðurinn, verður að fara af stað að leita að fje því, er smalinn hefir týnt.

Kvenfólkið tefst mjög mikið. En það er ókostur, sem vegur mikið á móti gagninu, sem af fráfærunum kynni að leiða. Í sambandi við þetta er það rjett hjá nefndinni, að þetta dragi úr fóðurframleiðslunni, en afleiðingin af því er annaðhvort enn verri hjásetning, eða að fjenu verður að fækka. Og þar við bætist svo það, að um leið og fóðurframleiðsla er minni, ef fært er frá, þá er fjeð líka fóðurfrekara. Þar hefi jeg og fleiri, sem verið hafa í bændastjett, mjög mikla reynslu. (Atvinnumálaráðherra: Eru hagalömb yfirleitt fóðurfrekari en dilkar?) Það þarf yfirleitt að fóðra hagalömb betur. Ær, sem altaf eru höfuðsetnar, þurfa ólíkt meira fóður að vetrinum en dilksetnar, sem fá að ganga í frjálsræði hvar sem þeim sýnist og leita sjer hins besta fóðurs upp til fjalla.

Enn fremur er það rjett hjá nefndinni, að framleiðsla á kjöti hlýtur að minka; það er bæði minna og lakara kjöt af fráfærnalömbum en dilkum og af horuðum kvíaám heldur en fjallgengnum dilkám. Og þar kemur því undir eins frádráttur á hagnaði þeim, er leiðir af fráfærunum, þar sem kjötið minkar og versnar. Í sambandi við skortinn á feitmeti innanlands vil jeg geta þess, að það er ekki sjálfsögð skylda að flytja kjötið út úr landinu, ef ekki er von um gott verð fyrir það. En nú er það öllum vitanlegt, að kjöt gefur ekki einungis af sjer ágætt feitmeti, heldur og sparar annað feitmeti, því það mun ekki síður á landi hjer að eta smjör við kjöti. Gagnvart smjörframleiðslunni kemur fram stór ókostur um framleiðslu á kjöti.

Hæstv. atvinnumálaráðh. gat þess, að líkur væru til, að kjöt yrði í lágu verði, og að litlar líkur væru til þess, að hægt yrði að flytja það út, en ef svo er, þá sýnist mjer vafasamt, hvort nokkurrar aukinnar smjörframleiðslu þurfi við, því að eins og jeg tók fram, kemur þá kjötið í staðinn fyrir smjör. Jeg held nú líka, að kjötið sje ódýrasta fæðan í landinu, jafnvel með því verði, sem á því var í haust.

Enn fremur má geta þess, að um leið og fráfærurnar draga úr kjötframleiðslunni, þá spilla þær gæðum þeirrar vörutegundar, sem undanfarið hefir verið talin besta tegund sauðakjöts, sem er dilkakjötið.

Þá er enn beint tap, sem verður að draga frá gróðanum af aukinni smjörframleiðslu, og það er, að mörinn minkar og tólgin þar af leiðandi. Þótt dæmi sjeu til þess, að fráfærnalömb skari hátt upp í dilka að þyngd, þá hefi jeg reynslu fyrir því, að fráfærnalömb eru miklu mörminni. Hjer kemur þá líka nokkuð til frádráttar frá aukinni smjörframleiðslu.

Framleiðsla á skyri, sýru og ostum er fult svo þýðingarmikil eins og framleiðsla á smjöri. (Atvinnumálaráðh.: Alveg rjett!). Það alt verður auðvitað fyrir sama frádrætti og smjörið.

Svo er ýmislegt fleira, sem mætti minna á, þótt það sje ekki mikilsvert, en það er annar kostnaður fyrir utan vinnukostnað. Vegna flutningateppunnar, sem á sjer stað, þá hafa skilvindurnar, sem hljóta nú orðið að vera skilyrði fyrir því, að fráfærur þrifist, gengið úr sjer. Menn hafa nú upp á síðkastið orðið að notast við gamla garma. Ef nú á í einu flughasti að skipa fyrir fráfærur og bjóða þeim mönnum að færa frá, sem ekki hafa ætlað að gera það, og annaðhvort eiga enga skilvindu eða einhverja ómynd, þá getur það orðið dýr útgjaldaliður, enda hugsa jeg líka, að landstjórnin hafi ekki hugsað fyrir því að hafa nógar skilvindur á boðstólum. Það er að vísu gert ráð fyrir í frv., að verja megi fje til fráfærna úr landssjóði, en það er svo óljóst orðað, að jeg veit ekki hvað átt er við með því. Fjeð verður þá að vera til þess að auka vinnukraftinn og líka til þess, að hægt sje að ná í þau áhöld, sem til fráfærna þarf.

Svo er enn einn ókostur við fráfærur, sem margir hafa rekið sig á,og hann er sá, að miklu lakari heimtur eru á fráfærnalömbum en dilkum. Dilkærnar skila sjálfar dilkunum heim á haustin, en það er oft, að fráfærnalömb koma aldrei fram, eða þau eru seld í öðrum hjeruðum fyrir lítið verð, sem óskilafje.

Eitt aðalatriðið í þessu máli er enn fremur, að ekki er hægt að búast við neinum árangri af fráfærum sem þvingunarráðstöfun. Menn eiga að vera svo heilskygnir, að sjá hvar fráfærur borga sig og hvar ekki, og það eru menn líka oftast. Ólafsdalur er t. d. sjálfsögð fráfærnasveit; þar er land alt undan túni og smalamenska hæg. Það blindaði Torfa heitinn í Ólafsdal — jeg segi honum það alls ekki til lasts, — en það hagaði alt öðruvísi til hjá honum en víða annarsstaðar.

Það er áreiðanlegt, að ef koma á á almennum fráfærum með þvingunarlögum, þá verður jafnframt að rjetta fram einhverja sterka og örugga hjálparhönd, bæði með vinnukraft og annað.

Jeg get því ekki ásakað mig, þótt jeg greiði atkvæði með þessari rökstuddu dagskrá, en móti frv., þegar litið er á alt, sem mælir á móti því. Þetta eru þvingunarlög, sem annaðhvort verður ekki hlýtt eða þá af nauðung. Þau hafa að minsta kosti sjö annmarka í för með sjer:

1) þau útheimta aukinn vinnukraft,

2) draga úr fóðurframleiðslu, en auka fóðurþörf,

3) minka framleiðslu kjöts, bæði til fæðis í landinu og til útflutnings,

4) spilla gæðum þess,

5) draga stórlega úr framleiðslu tólgar,

6) auka annan kostnað og krefjast áhalda, sem vafasamt er að verði útveguð í tíma,

7) valda verri heimtum og jafnvel reglulegum fjársköðum.

Alt þetta finst mjer góðar og gildar ástæður til þess að vera á móti frv., þótt jeg hins vegar játi, að fráfærur geti verið mikið góðar þar, sem þær eiga við, og þar, sem menn geta á viðunanlegan hátt veitt sjer nægan vinnukraft og önnur nauðsynleg skilyrði.