06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (1616)

33. mál, veðurathugunarstöð í Reykjavík

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að fjölyrða um þetta mál frekar en skýrt er frá í greinargerðinni, enda er auk þess öllum þm. frv. kunnugt frá síðasta sumri, er það var afgreitt frá deildinni með samhljóða atkvæðum. Og þar sem það eitt varð banamein frv., að það dagaði uppi í efri deild, þá fanst nefndinni sjálfsagt að hreyfa þessu máli að nýju.

Auk þess hefir nýtt atriði komið fram í þessu máli, og það er það, að líkur eru til, að ungur og efnilegur námsmaður leggi fyrir sig þessa fræðigrein, ef von væri atvinnu síðar.

Það er ekki þann veg að skilja, að nefndinni sje ekki ljóst, að hjer á landi væru ýmsir menn þeim starfa vaxnir og vel hæfir til að standa fyrir slíkri stöð, en yfirleitt eru þeir menn hjer svo störfum hlaðnir, að þeir gætu varla lagt þetta á sig í viðbót. Auk þess væri það mikill styrkur fyrir málið, að hægt væri að byrja með ungan mann, sem lagt hefði þessa fræðigrein fyrir sig frá byrjun, og hefði því þekkingu til að stjórna slíkri stöð, sem hjer um ræðir, svo að sómi væri að.

Annars ætlast enginn til, að stöðin verði sett upp nú þegar, en það er ekki nema gott, að lögin sjeu til, sem bending um það, að þetta muni þó verða gert, og gæti það orðið manni þessum næg hvöt til að leggja stund á þessa fræðigrein.

Að þessu sögðu skal jeg ekki eyða fleiri orðum um frv. að þessu sinni, en jeg vona, að hv. deild taki því eins ljúflega í fyrra og leyfi því að ganga til 2. umr.