18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1634)

43. mál, skipun læknishéraða o.fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg var ekki við, þegar þetta frv. var til 1. umr. Jeg hygg, að þá hafi orðið litlar umræður um málið. Mjer þykir skylt nú að staðfesta það, sem tekið var fram í framsögunni og skýrt er frá í greinargerð nefndarinnar, að nefndin flytur frv. fyrir tilhlutun stjórnarinnar. Stjórnin hafði fengið tilmæli um það frá Læknafjelagi Íslands að leggja þetta mál fyrir þingið. Þetta er háttv. þingdm. kunnugt, ef þeir hafa lesið greinargerð nefndarinnar. En ráðuneytinu þótti beinast að koma málaleitunum Læknafjelagsins á framfæri á þennan veg.

Það er alveg rjett athugað hjá háttv. frsm. (M. P.), að ferðakaup læknanna er miðað við alment verkakaup þegar lögin voru samin. Það er því ekki mikið, þó læknar fái nú helmingi hærra ferðakaup. Verkamannakaup er nú orðið þrefalt við það, sem þá var.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) var að tala um það, að rjett væri að hverfa frá því að láta sjúklingana borga fyrir læknishjálpina, en að læknar ættu að fá öll sín laun af almannafje. Þetta er ekki nein ný hugmynd. Það hefir mikið verið um hana rætt í ýmsum löndum. T. d. var hún mjög ofarlega á dagskrá í Noregi fyrir nokkrum árum. Jeg segi ekki neitt um það, hve langt þetta mál hefir komist í Englandi í vetur, en víðast hvar, sem það hefir komið til umræðu, hefir það verið kveðið niður, og það þegar í stað. Menn óttast það, að læknar muni ekki alment leggja sig eins mikið í framkróka með að hjálpa sjúklingum, ef þeir eigi að gera það sem embættismenn að eins, án þess að fá nokkra þóknun fyrir læknisverkin sjerstaklega.

Það væri auðvitað ekki heldur talsmál að breyta launakjörum lækna í þessa átt á þessu þingi. Til þess vantar málið undirbúning. En frv., sem fyrir liggur, er að eins bráðabirgðaúrræði, sem ekki hefir nein áhrif á launamál læknanna í framtíðinni. Eins og kunnugt er, er nú orðið svo mikið af læknum, sem ekki eru embættislæknar. Þeir geta tekið fyrir læknisverk sín eins og þeim sýnist, og auðvitað hækkað læknagjöld sín í samræmi við dýrtíðina. Það er því ekki nema eðlilegt, að embættislæknar þykist beittir ósanngirni, ef þeir fá ekki neina hækkun, sem sje í samræmi við hækkunina á öllum sviðum, hvert sem litið er. Alstaðar hækka launin, og það er að sjálfsögðu krafa, sem læknarnir eiga, eins og aðrir menn, að þeirra tekjur sjeu hækkaðar. Eins og háttv. framsm. (M. P.) benti á, er læknaþóknunin ekki eingöngu föst laun. Þessar 1.500 kr., sem læknirinn fær úr landssjóði, eru laun hans sem embættismanns. Það, sem hann fær þar fram yfir, er borgun fyrir verk, sem hann vinnur fyrir einstaka menn, og ætti því í raun og veru að ráða yfir, þó löggjafarvaldinu hafi þótt rjett að takmarka hve dýrt hann selur þessi verk, fyrst hann fær auk þess þóknun sem embættismaður. Það er því sanngjarnt, að læknar fái líka þau verk betur borguð í dýrtíðinni, sem þeir vinna fyrir einstaka menn, því læknarnir hafa líka önnur störf með höndum en að lækna sjúklinga, störf sem þeir eiga að leysa af hendi sjerstaklega sem embættislæknar.